þriðjudagur, 21. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafró sér fram á uppsagnir

2. maí 2019 kl. 15:52

Árni Friðriksson, skip Hafrannsóknastofnunar.

Forstjóri Hafrannsóknastofnunar segir það fjármagn sem stofnuninni er ætlað í fjármálaáætlun 2020-24 ekki duga til að sinna grunnrannsóknum.

Hafrannsóknastofnun kemst ekki hjá því að segja upp fólki í haust, verði farið eftir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2020 til 2024. 

Þetta segir Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafró, í umsögn sinni um fjármálaáætlunina sem send var alþingi í dag. RÚV greindi fyrst frá.

Hann segir það „viðurkennt bæði af fjármálaráðuneytinu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að fjárveitingar Hafrannsóknastofnunar eru ekki nægar til að sinna grunnrannsóknum á nytjastofnum og umhverfi.“ 

Hins vegar sjáist þess ekki stað í fjármálaáætluninni. 

„Það virðist því einboðið að draga þarf verulega úr rekstri og þar með rannsóknum og úthaldi rannsóknaskipa á næsta ári og næstu árum. Slíkur samdráttur getur ekki átt sér stað nema með uppsögnum starfsmanna bæði á sjó og í landi og til að slíkar aðgerðir hafi áhrif þarf að óbreyttu að ráðast í þær í haust þegar fjármálafrumvarp liggur formlega fyrir.“

Sigurður segir að vissulega eigi að auka fjárveitingu til Hafró um 150 milljónir á ári og það komi til móts við lækkun sértekna úr Verkefnasjóði upp á sömu fjárhæð. Þar með sé búið að tryggja stofnuninni 400 milljóna fjárveitingu á ári í stað þess að stofnunin sé háð ótryggum tekjum úr Verkefnasjóði.

Uppsöfnuð lækkun árin 2020-22 nemi hins vegar 503 milljónum króna. „Fyrrgreind 150 m.kr. leiðrétting hefur því litla þýðingu til lengri tíma litið.“