miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hald lagt á hundruð tonna af möðkuðum sjávarafurðum

31. desember 2009 kl. 13:43

Ítölsk stjórnvöld hafa nú í desember lagt hald á samtals 500 tonn af sýktum og skemmdum sjávarafurðum sem að stórum hluta voru ætlaðar til neyslu í nýársveislum nú um áramótin. Meðal þess sem gert var upptækt voru 323 tonn af möðkuðum ansjósum og 70 tonn af fiski frá Asíu sem selja átti sem ítalska vöru.

Einnig var lagt hald á 80 tonn af frystum kræklingi sem var á síðasta neysludegi fyrir fjórum til fimm árum síðan.

Þetta er afrakstur sameiginlegra aðgerða ítölsku strandgæslunnar og ítölsku lögreglunnar sem hófust 10. desember síðastliðinn. Alls hafa verið gefnar út yfir 300 ákærur vegna þessara brota og nú þegar hafa verið úrskurðaðar sektir upp á jafnvirði tæplega 300 milljóna íslenskra króna.

Luca Zaia landbúnaðarráðherra Ítalíu stendur fyrir þessari herferð en hann hefur barist fyrir því innan Evrópusambandsins að  allar matar- og drykkjarvörur sem seldar eru í ríkjunum sambandsins verði upprunamerktar.