sunnudagur, 9. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hátt í fjórðungur sjómanna gengur úr Sjómannasambandinu

29. desember 2017 kl. 13:54

Sjómanna- og vélstjórafélagið í Grindavík gengur úr ASÍ og Sjómannasambandinu

Valmundur Valmundsson, framkvæmdastjóri Sjómannasambands Íslands, segir það dapurlega staðreynd að félagsmenn innan Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur hafi valið það að segja sig úr ASÍ og þar með Sjómannasambandinu. Þetta var ákveðið í kjöri á fundi félagsins í gær.

 

Þetta nær til um 500 sjómanna eða næstum fjórðungs allrar sjómannastéttarinnar. Valmundur segir úrsögnina vissulega hafa áhrif á Sjómannasambandið eins og alltaf gerist þegar einhverjir gangi úr skaftinu.

„Félagið í Grindavík var það eina sem ekki gat greitt út fullar verkfallsbætur í sjómannaverkfallinu. Ég hef ekkert um það að segja og skipti mér ekki af fjármálum einstakra félaga innan sambandsins. En þetta endaði þannig að félagið var það eina sem gat ekki greitt út fullar verkfallsbætur og leitaði það þá til ASÍ. Erindinu var hafnað þar.“

Með því að segja sig úr ASÍ gengur Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur sjálfkrafa úr Sjómannasambandi Íslands. Valmundur segir það eðlilegt og alveg í takt við félagafrelsi.

„Sjómannasambandið var samband 18 aðildarfélaga. Þau 17 sem velja að vera innan sambandsins eru innan ASÍ.“