miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hægt er að endurreisa fiskistofna heimsins

2. ágúst 2009 kl. 14:29

Fiskistofnum heimsins er hætt við hruni um miðja öldina vegna ofveiði, en unnt er að endurreisa þá með réttri fiskveiðistjórnun. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem Reuters segir frá. Rannsóknin hefur staðið yfir í tvö ár og þátttakendur eru vísindamenn frá Norður- og Suður-Ameríku, Afríku, Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Meðal svæðanna sem rannsökuð voru er landgrunnið við Ísland.

Haft er eftir Boris Worm við Dalhousie University í Halifax, Nova Scotia í Kanada, að hann sé bjartsýnni nú en áður um að ástand stofnanna sé að batna. Hann spáði því árið 2006 að allsherjarhrun yrði í fiskistofnum heimsins fyrir árið 2048.

Einstaklingsbundin hlutdeild í heildarkvóta er meðal lausnanna

Ennþá er talið að endurreisa þurfi 63% af fiskistofnum heimsins, en Worm segist bjartsýnni vegna þess að hann sjái að til séu stjórntæki sem hafi virkað.

Meðal stjórntækjanna séu takmarkanir á notkun neta til að minni og smærri fiskur geti sloppið, takmarkanir á heildaraflaheimildum, svæðalokanir, vottun um sjálfbærar fiskveiðar og að bjóða hlutdeild í heildarkvóta til hvers einstaklings sem veiðir á tilteknu svæði.