föstudagur, 26. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrefna Karlsdóttir: Erfitt að vefengja rétt okkar til makrílveiða

5. maí 2009 kl. 15:00

,,Við vonumst til að þetta sé byrjunin á því að unnt sé að hefja viðræður um skiptingu makrílkvótans á réttum vettvangi þar sem öll strandríki sem hlut eiga að máli koma að samningaborðinu, þar með talið Ísland,“ sagði Hrefna Karlsdóttir, skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu sjávarútvegsráðuneytisins, í samtali við Fiskifréttir en Íslandi hefur borist boð frá ESB, Færeyjum og Noregi um að taka þátt í fundi um stjórn makrílveiða sem haldinn verður í London 29.-30. júní n.k. Ísland hefur þegið boðið.

Síðastliðið haust var Íslandi boðið að senda áheyrnarfulltrúa í fyrsta sinn á fund strandríkjanna en nú gefst þeim kostur á að senda fulltrúa til beinna viðræðna um stjórn veiðanna. ,,Íslendingar hafa óskað eftir því í áratug sem strandríki að taka þátt í ákvörðun um stjórn makrílveiðanna og að hin strandríkin virði rétt okkar til þess. Makríllinn gengur í auknum mæli inn í lögsögu okkar og veiðar Íslendinga á makríl hafa aukist. Erfitt er að vefengja rétt okkar til þessara veiða. Það er því jákvætt að okkur skuli vera boðið til þessara viðræðna nú,“ sagði Hrefna. Fram kom hjá Hrefnu að ekki væri búið að senda út dagskrá fyrir fundinn en væntanlega yrði aðallega rætt um stjórn veiðanna á næsta ári. Hún efaðist um að fyrri ákvörðunum um stjórn veiðanna í ár yrði breytt.

Þótt Íslendingar telji sig hafa rétt til hlutdeildar í makrílveiðum eins og önnur strandríki hefur ekki verið sett fram bein krafa um það hve sá hlutur ætti að vera stór. Hrefna var spurð hvaða vegarnesti Íslendingar færu með á fundinn í London í lok júní. ,,Við fengum boð um að mæta á fundinn fyrir nokkrum dögum. Við höfum ekki rætt það enn innan sjávarútvegsráðneytisins hvað við leggjum nákvæmlega fram. Ég geri ráð fyrir því að við förum með það vegarnesti að fá réttláta hlutdeild í makrílstofninum. Hvað það þýðir er ávallt samningsatriði,“ sagði Hrefna Karlsdóttir.