mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrognavinnsla hafin í Helguvík

7. mars 2018 kl. 12:13

Vilhelm Þorsteinsson EA í Helguvík. MYND/Eggert Ólafur Einarsson

Hrognavinnsla hófst í verksmiðju Síldarvinnslunnar í Helguvík síðastliðna nótt þegar Vilhelm Þorsteinsson EA kom þangað með 1.500 tonn af loðnu.

Loðnan fékkst í Faxaflóa og út af Snæfellsnesi. Hrognin eru unnin í samvinnu við Saltver ehf. í Reykjanesbæ. Loðnan er kúttuð og hreinsuð í Helguvík en fryst í húsnæði Saltvers í Njarðvík. Síldarvinnslan skýrir frá þessu á vef sínum.

Síldarvinnslan vitnar í Eggert Ólaf Einarsson, verksmiðjustjóra í Helguvík, sem segir hrognavinnsluna fara rólega af stað að venju en í morgun hafi allt verið farið að snúast þokkalega.

Alls eru rúmlega 4.000 tonn af loðnu komin á land í Helguvík á vertíðinni að meðtöldum þeim afla sem nú er verið að landa úr Vilhelm Þorsteinssyni. Grænlenska loðnuskipið Polar Amaroq landaði þar 900 tonnum í gær.

Þá greinir Síldarvinnslan einnig frá því að Börkur NK sé á leið austur til Neskaupstaðar með 2.000 tonn af loðnu. Gert er ráð fyrir að hann komi til hafnar klukkan eitt í nótt og þá strax hefst hrognavinnsla hjá Síldarvinnslunni. 

Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri greinir frá því þessi afli hafi fengist í sjö köstum á tveimur dögum: „Fyrri daginn vorum við á miðjum Faxaflóa en í gær vorum við um 10 mílur út af Snæfellsnesi. Út af nesinu var ein góð torfa sem megnið af flotanum var í og var hún nánast veidd upp.“

Hann segir víða loðnu að sjá en það sé eins og hún hafi lítið skilað sér inn á Faxaflóann. 

„Auðvitað er alltaf beðið eftir fréttum af vestangöngu. Undanfarin ár hefur komið góð gusa að vestan en þá hafa skipin oft verið búin með kvótann. Í loðnunni sem við erum með núna er hrognafyllingin á milli 26 og 27% og hrognaþroskinn 95-100%. Þetta ætti að henta vel í hrognavinnsluna,“ sagði Hjörvar samkvæmt frásögn Síldarvinnslunnar.