föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Humarinn í góðu ástandi

20. maí 2009 kl. 15:00

Árlegum humarleiðangri Hafrannsóknastofnunar er lokið og allt stefnir í það að stofnvísitala humars 2009 verði í hærri kantinum eins og árin 2006-2008, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

,,Á heildina litið gekk leiðangurinn þokkalega og í stórum dráttum eftir væntingum. Síðastliðin tvö ár hefur humarstofninn verið í mjög góðu ástandi og mælingar nú eru í samræmi við það. Þó má segja að árangurinn sé aðeins misjafnari í ár en í fyrra,“ segir Hrafnkell Eiríksson, leiðangursstjóri í samtali við Fiskifréttir.

Fram kom hjá Hrafnkeli að humarinn hafi verið blandaður að stærð og mikið var um stóran humar. Einnig hafi verið svæði þar sem smærri humarinn var ríkjandi sem væri út af fyrir sig fagnaðarefni. ,,Niðurstöður um nýliðun liggja þó ekki endanlega fyrir því við eigum eftir að vinna betur úr þeim gögnum sem við höfum. Fljótt á litið virðast horfur á nýliðun þó vera ívið betri en í fyrra. Maður getur því verið ánægður með það að allt stefnir í áframhaldandi góða endurnýjun í stofninum,“ segir Hrafnkell.

Nánar er fjallað um málið í Fiskifréttum í dag.