mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ísland er í 16. sæti yfir mestu fiskveiðiþjóðir heims

18. desember 2008 kl. 10:05

Heimsaflinn á árinu 2006 nam 92 milljónum tonna og minnkaði um 2,2 milljónir tonna frá árinu 2005 en þá var aflinn 94,2 milljón tonn. Kínverjar veiddu þjóða mest en Íslendingar eru í 16. sæti yfir mestu fiskveiðiþjóðir heims.

Perúansjósa er sú fisktegund sem mest var veitt af í heiminum árið 2006, eða rúmar 7 milljónir tonna en það er um 7,6% af heimsaflanum. Þessar upplýsingar koma fram í nýrri skýrslu Hagstofunnar.

Alaskaufi kemur á eftir Perúansjósu, en 2,9 milljónir tonna voru veidd af honum og er það um 3% heildaraflans. Af þeim tegundum sem mest er veitt af í kringum Ísland er síld í fjórða sæti yfir mest veiddu tegundirnar í heiminum og kolmunni í því fimmta.

Árið 2006 veiddust rúmlega 2,2 milljónir tonna af síld og ríflega 2 milljónir tonna af kolmunna.

Tuttugu ríki voru með meiri afla en milljón tonn árið 2006 og nam samanlagður afli þessara ríkja tæpum 71 milljón tonna eða 77% af heimsaflanum. Aflahæsta þjóðin er sem fyrr Kínverjar, með 17,4 milljónir tonna eða 18,9%, en næstir koma Perúmenn með rúmlega 7 milljónir tonna eða 10,1%.

Íslendingar hafna í 16. sæti á þessum lista með 1,5% heildaraflans og falla um tvö sæti frá fyrra ári. Í þessum samanburði er miðað við afla í tonnum og ekki tekið tillit til þess að fisktegundir eru misjafnlega verðmætar.

Úr Kyrrahafi kom 50,1 milljón tonn eða um 54,5% heimsaflans og úr Atlantshafi komu 19,9 milljónir tonna eða 21,6% heimsaflans árið 2006. Afli úr innhöfum og vötnum var 10,1 milljón tonn árið 2006 eða 10,9%. Stærsti hluti heimsaflans er veiddur í Asíu eða 52,1%.