þriðjudagur, 11. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslenskt umhverfismerki kynnt á sjávarútvegssýningunni

5. september 2008 kl. 10:49

Íslenskt umhverfismerki fyrir íslenskan fisk hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið og verður kynnt á Íslensku sjávarútvegssýningunni 2.-4. október n.k.

Merkið vísar til íslensks uppruna afurðanna og ábyrgra fiskveiða. Heimilt verður að nota það á öllum mörkuðum fyrir sjávarafurðir. Merkið má jafnframt nota á afla íslenskra fiskiskipa úr deilistofnum sem lúta heildarstjórnun.

Frá þessu er skýrt í frétt frá Fiskifélagi Íslands.

Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafa jafnframt ákveðið með fulltingi stjórnvalda að óska eftir vottun óháðs og alþjóðlega viðurkennds, faggilts vottunaraðila til að staðfesta ábyrgar fiskveiðar Íslendinga.

Vottunaraðili mun vinna eftir kröfulýsingu sem byggir á leiðbeiningum FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, um verklag við vottun og merkingar afurða úr sjálfbærum fiskistofnum. Framkvæmd verkefnisins er í höndum Fiskifélags Íslands.