mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jafnræðisregla EES ekki brotin

10. desember 2009 kl. 16:24

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra vísar því á bug að boðað 5% álag við útflutning á óvigtuðum, ferskum fiski sé brot á jafnræðisreglum EES samningsins. Þetta álag sé til að tryggja jafnræði allra við öflun hráefnis til fiskvinnslu.

Boðaðar reglur um vigtun sjávarafla hafa fengið nokkuð harða gagnrýni. Ráðherra hefur boðað að heimilað verði að flytja út óvigtaðan, ferskan fisk gegn því að 5% álagi verði bætt við þá vigt sem dregin verði frá kvóta. Ekkert álag er nú.

Útvegsmenn hafa sagt þetta álag brjóta reglur EES um jafnræði, fiskframleiðendur gagnrýna að heimilað verði áfram að flytja út óvigtaðan fisk, 5% álag skipti litlu til að auka framboð á mörkuðum hér.

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, segir þessar reglur fyrst og fremst munu jafna aðstöðu á milli íslenskrar fiskvinnslu og þeirra sem flytja fisk út óvigtaðan á markaði erlendis. Fráleitt sé að halda því fram að í reglunum felist brot á EES reglum. Hann minnir á að samkvæmt íslenskum lögum sé þessi heimild miklu hærri, allt að 20% eftir fisktegundum.

Jón leggur áherslu á að markmið reglnanna séu að tryggja sem best megi verða að fiskaflinn sé unninn hérlendis og virðisaukinn verði eftir í landinu.  Ef þetta dugi ekki til að styrkja, bæta og jafna samkeppnisaðstöðu íslenskrar fiskvinnslu og íslenskra fiskmarkaða verði að skoða málið áfram.

Frá þessu er skýrt á vef ríkisútvarpsins, ruv.is