sunnudagur, 22. júlí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kjósa laxinn helst

11. október 2017 kl. 07:00

Lax er sífellt vinsælli í hefðbundinni matargerð í Japan. Mynd/HAG

Neyslumenning Japana hefur gjörbreyst

Tæplega helmingur aðspurðra í skoðanakönnun í Japan sögðust hafa valið sushi með laxi, þegar þeir borðuðu síðast á veitingastað sem bíður sérstaklega upp á þennan vinsæla rétt. Það var stórt japanskt sjávarútvegsfyrirtæki – Maruha Nichiro – sem gerði könnunina, og úrtakið var þúsund manns á aldrinum fimmtán til 59 ára.

Seafood Source segir frá.

Sjötta árið í röð
Niðurstaða könnunarinnar ætti í raun ekki að koma nokkrum manni á óvart þar sem að þetta er sjötta árið í röð þar sem niðurstaðan er þessi – lax er vinsælasta sjávarfangið á japönskum sushi veitingastöðum, eða helst þeim sem teljast til skyndibitastaða í þessum geira. Eru það þeir staðir þar sem maturinn berst viðskiptavinum á þar til gerðum færiböndum og þekkjast um allan heim.

Laxinn er sérstaklega vinsæll á meðal kvenna en rúmlega helmingur þeirra sögðust hafa valið lax. Þar á eftir var túnfiskur vinsælastur sem 31% sagðist hafa valið. Þegar horft er til beggja kynja er talan ögn lægri, eða 46,3% velja laxinn fyrstan. Ýmsar afurðir túnfisks fylla næstu sæti, en einnig smokkfiskur, hrá rækja og hrossamakríll, svo dæmi séu nefnd. Helstu breytingarnar eru að smokkfiskurinn er að tapa vinsældum sínum og það sama má segja um hrogn hvers konar.

Projekt Japan
Því má bæta við frétt Seafood Source að um 1980 borðuðu Japanir ekki hráan lax; í raun ekki fyrr en Norðmenn sjálfir settu af stað sérstakt átak – projekt Japan - til að selja þeim lax í stórum stíl. Það tókst með eftirtektarverðum hætti, og þegar lax var orðinn jafn vinsæl vara og raun ber vitni í Japan þá opnuðust einnig markaðir fyrir lax í Kína og Singapúr.