miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kóngakrabbastríð við Norður-Noreg

25. nóvember 2009 kl. 12:54

Hálfgert stríðsástand hefur ríkt að undanförnu í Finnmörku í Norður-Noregi milli sjómanna þaðan og sjómanna frá Mæri sunnar í landinu. Ástæðan er sú að hinir síðarnefndu hafa komið norður eftir á bátum sínum og lagt kóngakrabbagildrur ólöglega úti fyrir strönd Finnmerkur.

Strandgæslan hefur að beiðni norsku fiskistofunnar lagt hald á töluvert af krabbagildrum en virðist þó eiga erfitt með að ráða við ástandið. Kóngakrabbinn er mjög verðmætur og því er freistingin mikil. Hefur komið til harðra orðaskipta milli sjómanna og jafnvel morðhótana í garð aðkomumanna, að því er norska ríkisútvarpið greinir frá.

Kóngakrabbaveiðar hafa stóraukist á undanförnum árum og nú hefur norska hafrannsóknastofnunin hefur lagt til að veiðarnar verði alfarið bannaðar á næsta ári við Noreg vegna þess að veiðistofninn hefur mælst helmingi minni í ár en hann var í fyrra.

Skýringin er sú að kvótasetning krabbans gildir aðeins um svæðið innan 12 mílna en þar fyrir utan eru frjálsar veiðar. Eigi að síður er þetta sami stofninn. Þá hefur veiðst mikið af uppvaxandi krabba sem veikir stofninn til lengri tíma litið.

Kóngakrabbinn er aðkomudýr í Barentshafi. Rússar fluttu hann þangað úr Kyrrahafi um miðja síðustu öld. Lengi vel fjölgaði honum hægt en svo var eins og sprenging yrði í stofninum og útbreiðslusvæði hans stækkaði stórum. Hefur krabbinn verið að fikra sig lengra og lengra í vesturátt á síðustu árum meðfram strönd Noregs.