þriðjudagur, 11. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Laxeldi: Hrun í Chile veldur samdrætti í framleiðslu

16. nóvember 2009 kl. 15:00

Marine Harvest, stærsti framleiðandi á eldislaxi í heiminum, gerir ráð fyrir samdrætti í viðskiptum með eldislax á næsta ári samfara aukinni eftirspurn, að því er fram kemur á vef IntraFish.

Í áætlunum fyrirtækisins er reiknað með því að viðskipti með atlantshafslax muni dragast saman í heiminum um 3-7%. Skýringin á samdrættinum er sú að sjúkdómar hafa herjað á eldislax í Chile og valdið hruni í greininni þar.

Í Noregi er hins vegar gert ráð fyrir 6-8% aukningu á næsta ári sem er þó heldur hægari vöxtur en í ár. Í heild er gert ráð fyrir að Norðmenn, sem eru langstærsta framleiðsluþjóðin, muni framleiða 790 til 820 þúsund tonn á næsta ári.

Chile hefur hingað til komið næst á eftir Noregi í laxeldinu. Árið 2008 var framleiðslan þar 390 þúsund tonn en nú er gert ráð fyrir því að hún hrapi niður í 50-70 þúsund tonn á árinu 2010.

Marine Harvest reiknar svo með að framleiðslan í Norður-Ameríku verði 115-125 þúsund tonn á næsta ári en hún er um 120 þúsund tonn í ár. Í Bretlandi er búist við 2-8% vexti og að þar verði framleidd 130-140 þúsund tonn af eldislaxi.