fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Líflegt á kolmunnamiðunum

11. apríl 2018 kl. 09:00

Börkur NK. (Mynd: Hákon Ernuson)

Kolmunninn að skríða inn í færeysku lögsöguna.

Kolmunnaveiðin fer vel af stað í færeysku lögsögunni, segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Bjarni Ólafsson fékk 580 tonn í fyrsta holi en togað var í 13 tíma. Hákon EA fékk um 500 tonn eftir 16 tíma og Börkur NK fékk 600 tonn eftir 15 tíma.

Heimasíðan ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki eftir hádegið í dag og var hann hinn ánægðasti.

„Þetta byrjar vel og heldur fyrr en í fyrra. Þá voru fyrstu bátar að byrja að toga 9. og 10. apríl. Fyrsta skipið á miðin núna var Hoffell SU og þeir fylltu í fjórum holum og lögðu af stað í land í nótt. Við vorum að klára að dæla úr öðru holinu okkar, togað var í 12 tíma og það gaf 460 tonn þannig að við erum komnir með tæp 1.100 tonn. Það er ekkert sérstaklega mikið að sjá hérna, en það er ágætis líf á kafla og það gefur vel í trollið. Menn hljóta að vera ánægðir með þessa byrjun á veiðunum,“ sagði Hjörvar.