þriðjudagur, 11. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnumælingar: Enn engar forsendur fyrir veiðikvóta

11. febrúar 2009 kl. 09:36

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson hefur enn ekki mælt neitt meira af loðnu og því skortir ennþá forsendur til þess að gefa út veiðikvóta á þessari vertíð. Stærsta mælingin fram að þessu var 385.000 tonn en reglan er að skilja eftir 400.000 tonn í sjónum til hrygningar. Fimm veiðiskip eru á miðunum rannsóknaskipinu til trausts og halds við mælingarnar. 

,,Það hefur því miður ekkert nýtt mælst af loðnu. Gangan sem er hér við suðurströndina er komin langleiðina að Kötlutanganum og er hér uppi í fjörum. Við erum núna við mælingu á henni frá Kötlutanganum og eitthvað austur úr. Ég veit ekki hversu langt hún nær. Ég sjáum ekki ennþá neinar breytingar sem benda til þess að eitthvað meira sé á ferðinni,” sagði Sveinn Sveinbjörnsson leiðangursstjóri á Árna Friðrikssyni þegar Fiskifréttir höfðu samband við hann um klukkan 9 í morgun. 

,,Í gær leituðum við Mýrarbugtina bæði grunnt og dýpra austan við aðalgönguna en það virtist lítið meira vera á ferðinni þar aftan við. Ég á von á því að eitthvað meira af loðnu komi að austan því þegar við vorum við mælingar um síðustu mánaðamót var loðna það langt norður með Austfjörðunum en líka komin vestur að Stokksnesinu. Fyrrnefnda loðnan er því ekki komin vestur úr ennþá. Þetta er hins vegar allt loðna sem við höfum þegar mælt,” sagði Sveinn. 

Veiðiskip hafa verið virkjuð til þess að leita að loðnu ásamt rannsóknaskipinu. Þetta eru Aðalsteinn Jónsson, Lundey, Súlan, Kap og Guðmundur. Þrjú fyrstnefndu skipin eru fyrir austan land en Kap var að kasta úti af Skarðsfjöru í morgun og fékk 80 tonn. Guðmundur var á leiðinni út. Þessu til viðbótar ætlaði Hákon EA, sem var á leið norðan að til Neskaupstaðar, að leita suður með kantinum frá Sléttu en Sveinn hafði ekki heyrt frá honum í morgun.