sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnuvertíð Norðmanna gaf 15 milljarða ísl. króna

12. maí 2009 kl. 12:00

Meðan íslenskir sjómenn þurftu að halda að sér höndum í loðnuveiðum á þessari vertíð fengu norskir og rússneskir starfsbræður þeirra að veiða loðnu í fyrsta sinn í mörg ár í Barentshafi.

Samkvæmt upplýsingum norska síldarsamlagsins nam aflaverðmæti norskra loðnuskipa í vetur 375 milljónum norskra króna eða jafnvirði rúmlega sjö milljarða íslenskra króna á núverandi gengi og áætlað útflutningsverðmæti er helmingi meira eða tæpir 15 milljarðar íslenskra króna.

Sem kunnugt er var einungis úthlutað rannsóknakvóta á loðnu við Ísland á vertíðinni í vetur. Kvótinn nam 15.000 tonnum og má ætla að hann hafi skilað um einum milljarði króna í útflutningstekjum.

Loðnuveiðar voru bannaðar í Barentshafi frá árinu 2004 og þar til í vetur þegar gefinn var út 390.000 tonna kvóti, þar af komu 223.000 tonn í hlut Norðmanna og  167.000 tonn í hlut Rússa.