föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

LS varar við breyttum lánaskilmálum Landsbankans

31. ágúst 2009 kl. 13:24

Landssamband smábátaeigenda varar félagsmenn við því að samþykkja breytta skilmála lána Landsbankans fyrr en raunhæf leiðrétting lánsupphæðarinnar hefur átt sér stað, eins og segir í áskorun á vef LS.

Á vefnum segir m.a.:   

Smábátaeigendur sem eru í viðskiptum hjá Landsbankanum hafa undanfarna daga fengið símtöl frá honum þar sem boðið er upp á breytingar á erlendum lánum.

Samkvæmt upplýsingum frá félagsmönnum felast þær í undirritun nýs lánasamnings þar sem viðkomandi samþykkir að greiða 8% árlega af upphaflegum höfuðstól lánsins auk verðbóta með vísitölu neysluverðs frá lántökudegi.  Einnig er vaxtaálag hækkað verulega eða úr 2,2% í 3,75% eins og fram kemur í dæminu sem LS hefur undir höndum.

Gamalgróin aðferð

Landsbankinn notar gamalgróna aðferð til að þrýsta á menn að samþykkja skilmálana, sagt er: „Flestir eru búnir að samþykkja að fara þessa leið og því best að skrifa strax undir“!  Eftir því sem LS kemst næst er það ekki rétt.    Landssamband smábátaeigenda varar félagsmenn við því að samþykkja breytta skilmála lána fyrr en raunhæf leiðrétting lánsupphæðarinnar hefur átt sér stað.  Flestir eru með lánin í frystingu og þau i skilum, en þar sem komið er að framlengingu frystingar er pressan mest.  LS hefur kvartað til stjórnvalda um að fyrirheit þeirra um allt að tveggja ára frystingu lána án skilmálabreytinga sé ekki að skila sér.

Sérfræðingar skoða málin

LS hefur látið lánsskjölin í hendur sérfræðinga sem vinna nú að samanburði á gildandi skilmálum og þeim sem nú eru í boði, kostir og gallar.  Á meðan sú skoðun stendur yfir eru þeir sem hafa nýju skilmálana til skoðunar hvattir til að undirrita þá ekki.   Sérfræðingarnir skila niðurstöðu sinni nk. mánudag og verður hún birt hér á síðunni.  Vinna við kortlagningu á stöðu félagsmanna stendur nú yfir.  Með slíkt í höndum verður LS betur í stakk búið til að ná fram allsherjarlausn í formi leiðréttingar lána.  Maður á mann aðferðin sem Landsbankinn vinnur nú eftir hugnast LS ekki.