miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Marksmál grásleppuhrogna í óvissu vegna kreppunnar

15. janúar 2009 kl. 16:09

Grásleppuhrognavertíðin 2008 var prýðisgóð, en ekki er ljóst á þessari stundu við hverju má búast á hrognamarkaðinum á komandi vertíð, að því er Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda upplýsir í nýjustu Fiskifréttum.

,,Miðað við eðlilegt ástand og stöðuna í lok síðustu grásleppuvertíðar hefði mátt ætla að horfur væru góðar í markaðsmálum fyrir komandi vertíð, en heimskreppan setur allt úr skorðum og því getur maður ekki leyft sér sömu bjartsýnina og þá. Við höfum ekki fengið tölur um kavíarsölu fyrir jólin en hætt er við því að hún hafi dregist eitthvað saman. Staðan er óljós og því er rétt að fara varlega í öllum undirbúningi fyrir veiðarnar,” sagði Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda í samtali við Fiskifréttir.

Árlegur samráðsfundur þeirra þjóða við Norður-Atlantshaf sem stunda grásleppuveiðar verður haldinn á Spáni 6. febrúar og á fundinn koma einnig fulltrúar kavíarframleiðenda. Að sögn Arnar ættu markaðsmálin þá að skýrast betur.

Í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag er rætt nánar við Örn Pálsson um grásleppuveiðar og birtar lokatölur um söltun hrogna á síðustu vertíð eftir stöðum.