mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Metveiði í júlímánuði af norsk-íslenskri síld

11. ágúst 2009 kl. 09:42

Aldrei hefur verið landað jafnmiklu af norsk-íslenskri síld í júlímánuði og nú eða tæpum 63.000 tonnum. Aflinn veiddist allur innan íslenskrar lögsögu og er það einsdæmi á þessum árstíma. Afli norsk-íslenskrar síldar sem veidd er í íslenskri lögsögu hefur aukist jafnt og þétt hef frá árinu 2004.

Þetta kemur fram á vef Fiskistofu. Íslensk skip á veiðum úr deilistofnum voru eingöngu við veiðar innan íslensku lögsögunnar í nýliðnum júlí. Ber þar helst að nefna makrílveiðarnar en í mánuðinum var landað tæplega 59.000 tonnum af makríl. Það er nokkru minna en á sama tíma í fyrra, en ætla má að afturköllun leyfa til beinna veiða á makríl snemma í mánuðinum hafi haft áhrif þar á.

Kolmunni hefur verið að veiðast sem meðafli á norsk íslensku síldarveiðunum og var landað 210 tonnum í júlí.

Líflegra er yfir úthafskarfaveiðunum í ár en í fyrra. Í júli var landað rúmlega 7.000 tonnum samanborið við engan afla á sama tíma í fyrra og er úthafskarfakvótinn nánast fullnýttur.

Uppfærðar töflur, sem sýna skiptingu afla íslenskra skipa í úthafstegundum eftir veiðisvæðum, er hægt að skoða á vef Fiskistofu, HÉR