miðvikudagur, 20. júní 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikilvægt að forðast ormaslóð

18. maí 2017 kl. 08:00

Þorski landað. Mynd Óðinn Magnason

Hugmynd um að nýta AIS kerfið til að skrá veiðislóðir

Formaður LS hefur lagt fram nýstárlega hugmynd um hvernig nota megi AIS kerfið til að viðhalda og auka gæði íslenskra sjávarafurða, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.   

Siglingaleiðir skipa eru skráðar í AIS kerfinu og geymdar í gagnabanka. Axel Helgason, formaður Landssambands smábátaeigenda, telur að útfæra megi þetta kerfi til að skrá veiðislóðir skipa inn í gagnagrunn fiskmarkaða. Mikilvægt sé að kaupendur fisks á mörkuðum viti hvar sá fiskur sé veiddur sem þeir ætla að bjóða í.

Axel sagði að hann hefði velt þessu máli fyrir sér og í framhaldinu dottið í hug að nota mætti upplýsingar úr AIS kerfinu. „Skip senda frá sér sjálfvirkt upplýsingar allt frá því þau leggja úr höfn og þar til þau landa. Þar er meðal annars staðsetning skráð og hraði skipa. Út frá hraða þeirra má ráða á hvaða veiðislóð þau eru því hraði skipa og báta við tiltekinn veiðiskap er þekktur.

Þegar bátar tilkynna um afla til fiskmarkaða eða landa afla á markað gætu kaupendur nálgast hversu hátt hluttfall aflans var tekinn á skilgreindum ormasvæðum eða á svæðum sem eru laus við orm eða því sem næst. Flestir sem ég hef kynnt hugmyndina fyrir hafa tekið vel í hana og við fyrstu sýn virðast ekki vera neinir tæknilegir örðugleikar við að framkvæma þetta,“ sagði Axel.

Axel sagði að ávinningur af slíku kerfi væri margþættur. „Með þessu má tryggja enn frekar að sem best hráefni komi að landi á hverjum tíma. Það vakir þó fyrir mér fyrst og fremst að kerfið geti hjálpað þeim sem koma með hágæðahráefni að landi að fá hærra verð á mörkuðum fyrir sinn fisk.“

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.