miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mjöltankarnir fluttir frá Grandanum til Vopnafjarðar í næstu viku

4. júlí 2009 kl. 18:02

Mjöltankar HB Granda sem standa úti á Granda í Reykjavík verða í lok næstu viku fluttir til Vopnafjarðar. Flutningaprammi kemur frá Noregi til Reykjavíkur um miðja vikuna til að flytja tankana. Í frétt á vef HB Granda segir að vonast sé til að tankarnir verði komnir til Vopnafjarðar mánudaginn 13. júlí.

Í fréttinni segir að mjöltankarnir hafi verið hluti fiskmjölsverksmiðju félagsins í Reykjavík en þar hafi vinnslu verið hætt í ársbyrjun 2005. Tankarnir hafi verið 18 metra háir en þeir hafi verið hækkaðir um 4 metra til að hægt væri að koma fyrir í þeim svokölluðum sprengilúgum en slíks búnaðar sé nú krafist samkvæmt reglugerð. Auk tankanna verða ýmis tæki úr fiskmjölsverksmiðjunni í Reykjavík flutt til Vopnafjarðar þar sem þau munu nýtast í verksmiðjunni á staðnum.

Tankar HB Granda í Reykjavík eru tíu en enginn mjöltankur er á Vopnafirði. Þar hefur verið notast við mjölskemmur þar sem mjöl er geymt í sekkjum, sem vega 1,5 tonn hver.