sunnudagur, 22. apríl 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Niðursoðinn lax gengur í ferðamanninn

16. júní 2017 kl. 14:06

Tinna Hrund Birgisdóttir markaðsstjóri Reykjavík Foods og Þórdís Jóhannsdóttir Wathne framkvæmdastjóri við kynningu á framleiðslu fyrirtækisins á Bryggjunni á Granda sl. mánudag. MYND/EVA BJÖRK

Reykjavík Foods vill hefja á markaði vestanhafs og í Evrópu

Nýsköpunar-, framleiðslu- og markaðsfyrirtækið Reykjavík Foods hefur sett á markað niðursoðinn lax með fjórum bragðtegundum. Varan hefur fengið góðar viðtökur þar sem hún hefur verið til sölu og fyrirtækið hyggst færa út kvíarnar með framleiðslu á fleiri vörutegundum úr sjávarafurðum og hefja markaðssókn vestan hafs og í Evrópu.

GUÐJÓN GUÐMUNDSSON

gugu@fiskifrettir.is

Lax hefur ekki verið soðinn niður í dósum hér á landi síðan á síðustu öld en þessi vara er þekkt erlendis. Varan kom á markað í þar síðustu viku og hefur verið nánast rifin út. Reykjavík Foods hélt svo kynningu á starfsemi sinni og vörum á Bryggjunni á Granda sl. mánudag.

„Við stofnuðum félagið fyrir einu ári og markmiðið var að auka verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi. Að loknum markaðsrannsóknum ákváðum við að hefja framleiðslu á laxi sem er hægeldaður í dós. Í lok síðasta mánaðar settum við á markað lax í dós í fjórum bragðtegundum og er þetta fyrsta varan frá Reykjavík Foods,“ segir Þórdís Jóhannsdóttir Wathne, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Auk hennar starfa hjá Reykjavík Foods Tinna Hrund Birgisdóttir markaðsstjóri, Jón Hilmar Karlsson sölumaður og Anna Margrét Sigurðardóttir hönnuður.

Lax með trufflum

Þórdís segir vöruþróun úr sjávarafurðum spennandi svið, „ekki síst í ljósi þess að verðmætasköpunin er svo lítil í kringum hráefnið. Þess vegna heillar sjávarútvegurinn mig,“ segir hún. Langalangafi Þórdísar var Óttar Wathne sem kenndi Íslendingum að veiða síld á Seyðisfirði fyrir aldamótin 1900. Afar hennar í móður- og föðurætt voru skipstjórar svo tengslin við sjávarútveginn liggja djúpt.

Engin aukaefni eða viðbætt efni eru í laxinum. Tegundirnar fjórar eru hreinn lax með sjávarsalti, lax með sjávarsalti, basil og hvítlauk, lax með trufflum og reyktur lax. Hráefnið er allt íslenskt og ferskt nema hvað notast er við innfluttan hvítlauk og trufflur.

Stór markaður í Evrópu

„Við höfðum rætt við talsvert marga ferðamenn hér á landi í markaðsathugunum okkar en satt best að segja stóð ekki til að selja Íslendingum þessa vöru. Ég hélt einfaldlega að það væri ekki markaðurinn fyrir okkur en annað kom þó á daginn. Við lögðum mikinn metnað í að vinna vöruna áfram og þróa aðferðina við suðuna með bragðprófunum. Í ljós kom að Íslendingar kunna mjög vel að meta vöruna og þarna er markhópur sem við töldum í fyrstu að væri ekki til staðar. Laxinn er hægeldaður í dósinni og þegar hún er opnuð eru öll næringarefnin og bragðgæðin til staðar. Varan er uppfull af Omega 3, próteinum og hágæða fitusýrum. Við ætlum að stilla vörunni upp við hlið foie gras og kavíar í hillunum úti. Frakkarnir eru t.d. vanir að kaupa svona vöru til að hafa í boðum. Í Frakklandi eru flutt inn 140 þúsund tonn af niðursoðnum sjávarafurðum árlega sem er eins og einn þriðji af öllum sjávarafurðaútflutningi Íslendinga. Þarna er mjög stór markaður og kaupendur reiðubúnir að greiða hátt verð fyrir gæðavöru,“ segir Þórdís.

Hún segir að varan henti vel sem forréttur, á snittur, í vefjuna eða út á salatið. Einnig er hún vinsæl meðal útivistarfólks sem þykir hentugt að hafa hana með sér í göngur eða á fjöll eða eftir æfingar.

„Við ætluðum upphaflega að einbeita okkar að ferðamannamarkaðnum hérlendis og fara síðan út með vöruna en nú hafa plönin breyst á þann hátt að við einbeitum okkur að ferðamannamarkaðnum og innlenda markaðnum og erum farin að kanna markaðsaðstæður í Mið-Evrópu, t.d. Frakklandi og Ítalíu, og í Kaliforníu. Á þessum stöðum höfum við gert ákveðna markaðsrannsókn og markmiðmiðið til næstu eins til tveggja ára er að hasla sér völl á þessum stöðum.“

Kominn í verslanir

Reykjavík Foods er með aðsetur í Sjávarklasanum í Reykjavík en framleiðslan fer fram í hjá Ican í Sandgerði. Hráefnið í laxaréttina kemur frá Arnarlaxi.

Þórdís segir að niðursuða á laxi stuðli að meiri nýtingu á verksmiðjunni í Sandgerði þar sem ekki sé verið að sjóða niður lifur á öllum árstímum. „Við erum því bæði að fullnýta hráefnið, þ.e.a.s. laxaflökin, og um leið náum við að fullnýta vinnsluna betur.“

Framleiddar eru 45.000 dósir á dag af niðursoðinni lifur í verksmiðjunni og segir Þórdís framleiðslugeta á niðursoðnum laxi verði ekki vandamál.

Í sumar ætlar fyrirtækið að einbeita sér að framleiðslu og sölu og laxi en svo stendur til að auka vöruúrvalið, að miklu leyti úr sjávarafurðum en einnig lambakjöti.

Laxinn er kominn í verslanir Hagkaups, 10-11, Fríhöfnina, Borðið á Ægissíðu og Vínberið.  Sums staðar seldist varan upp á fyrstu viku í sölu. Laxinn kemur í 145 gramma dósum og dugar því sem forréttur fyrir tvo eða í salat fyrir tvo.