föstudagur, 22. mars 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn flutt út 2,2 milljónir tonna

Guðjón Guðmundsson
18. nóvember 2018 kl. 06:00

Eldislax vegur þyngst í útflutningi Norðmanna. Aðsend mynd

Útflutningsverðmæti námu 144 milljörðum ÍSK

Norðmenn fluttu út 251.000 tonn af sjávarafurðum í október sem er 12% minna magn en í október 2017. Útflutningsverðmætið nam  144 milljörðum ÍSK sem er 10% aukning. Það sem af er árs nemur útflutningur sjávarafurða Norðmanna 2,2 milljónum tonna að verðmæti 1.173 milljörðum króna sem er 6% meira magn en fyrir sama tíma í fyrra og 4% meiri útflutningsverðmæti.

Þetta kemur fram í tölum frá samtökum norskra útgerðarmanna. Þar segir að drýgstur hluti afurðanna og útflutningsverðmætanna stafi af eldislaxi. Í október fluttu Norðmenn út 1.600 tonn af ferskum þorski fyrir rúman einn milljarð ÍSK. Þetta er 26% samdráttur í magni en 20% minni útflutningstekjur. Þá fluttu Norðmenn út 5.600 tonn af frystum þorski fyrir tæpa 3,4 milljarða ÍSK sem er 34% samdráttur í magni og 10% minni útflutningstekjur.

Stærstu markaðirnir fyrir frysta fiskinn var Kína og Bretland. Það sem af er árinu hafa Norðmenn flutt út 57.000 tonn af frystum þorski fyrir 30,5 milljarða ÍSK sem er 15% minna magn en fyrir sama tíma í fyrra og 2% minni útflutningstekjur.