föstudagur, 26. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Noregur: Aðeins helmingur hrefnukvótans veiddist

4. ágúst 2009 kl. 12:00

Hrefnuveiðum Norðmanna lýkur í þessari viku. Aðeins liðlega helmingur útgefins hrefnukvóta eða 467 dýr af 885 hafa veiðst. Þetta er minnsti hrefnuafli síðan árið 2000.

Lítill áhugi framleiðenda á kjötinu er ein ástæða þess að veiðarnar hætta mánuði fyrr en ætlað var, segir Per Rolandsen, talsmaður Norges Råfisklag, í samtali við Fiskeribladet/Fiskaren í dag. Önnur skýring er sú að vindasamt hefur verið á miðum hrefnuveiðimanna í sumar en þessar veiðar þurfa að fara fram í rólegu veðri og góðu skyggni.

Rolandsen telur ekki að neytendur hafi minni áhuga á hrefnukjöti í ár en fyrri ár. Hann bendir hins vegar á að það séu fiskframleiðendur sem kaupi kjötið til vinnslu. Þeir standi margir hverjir höllum fæti vegna erfiðleika í saltfisksölu og sitji uppi með miklar fiskbirgðir. Þessi fyrirtæki hafi nú aðgang að minna fjármagni en áður til hráefniskaupa. Þá nefnir hann að hvalvertíðin beri upp á sama tíma og sumarfrí í fiskvinnsluhúsum og það skapi vandamál.

Meðalverð fyrir hvalkjötið til veiðimanna í sumar hefur verið 31-40 norskar krónur kílóið eða jafnvirði 650-840 íslenskra króna.

Norski hrefnukvótinn var lengi vel 600-700 dýr og virtist sá fjöldi samsvara eftirspurn á neytendamarkaði í Noregi, segir í Fiskeribladet/Fiskaren. Árið 1998 var kvótinn aukinn í næstum 800 dýr án þess að veiðarnar ykjust að sama skapi. Ekki varð heldur nein aukning á afla þegar kvótinn var síðan færður upp í 1052 dýr þrjú ár í röð.