mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Noregur: Hæstu árslaun stjórnenda í sjávarútvegi 64 milljónir íslenskar

8. júlí 2009 kl. 15:00

Forstjóri norska eldisfyrirtækisins Cemaq var með hæstu árslaun forstjóra í norskum sjávarútvegi á síðasta ári. Hann fékk greiddar 3,2 milljónir norskra króna á árinu, eða 64 milljónir íslenskar. Þetta eru um 5,3 milljónir íslenskar á mánuði.

Þessar upplýsingar eru byggðar á yfirliti sem birt hefur verið í norskum fjölmiðlum um laun forstjóra 50 stærstu fyrirtækja í kauphöllinni. Þar kemur fram að tveir launahæstu forstjórarnir voru með yfir 20 milljónir norskra króna í laun á árinu 2008 (400 milljónir íslenskar).

Meðalárslaun forstjóranna 50 voru 5,3 milljónir og þar af voru bónusar 2,2 milljónir. Bent er á til samanburðar að Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, var með 1,26 milljónir í árslaun í fyrra.

Sá sem var með hæstu laun forstjóra sjávarútvegsfyrirtækja sem skráð eru í kauphöllinni, Geir Isaksen hjá Cermaq, var í 38. sæti á listanum. Næsti sjávarútvegsforstjórinn, Åse Aulie Michelet hjá Marine Harvest, var í 41. sæti með 2,7 milljónir en hún var ráðin í mars.

Arne Møgster hjá Austevoll Seafood er í 46. með 1,7 milljónir og Leif Inge Nordhammer hjá Salmars var í 49. sæti með 1,3 milljónir. Það vekur sérstaka athygli í norskum fjölmiðlum að toppmenn í sjávarútvegi skuli raða sér í neðstu sætin á listanum.

Heimild: IntraFish