miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn stórlækka sekt vegna Normu Mary

12. desember 2008 kl. 11:15

Onward Fishing, dótturfyriræki Samherja í Bretlandi,  hefur gert samkomulag við norsk yfirvöld um stórlækkun sekta vegna meinta brota togarans Normu Mary á Svalbarðasvæðinu síðastliðið sumar.

Skipstjóranum var gefið að sök að hafa ekki tilkynnt réttan afla og var skipið fært til hafnar í Tromsö.

Norsk yfirvöld hafa nú sæst á að um mistök eða óhapp af hálfu skipstjórans hafi verið að ræða en ekki vísvitandi brot.

Útgerðinni var upphaflega gert að greiða milljónir norskra króna (32 milljóna ísl. kr.) vegna upptöku afla og veiðarfæra og skipstjóranum 30.000 norskar krónur (480 þús. ísl. kr.) í sekt.

Viðurlög útgerðarinnar hafa nú verið færð niður í 350.000 NOK (5,6 millj. ISK) og skipstjórans í 15.000 NOK (240 þús. ISK).

Þetta kemur fram á vef Fiskeribladet/Fiskaren.

Lögfræðingur útgerðarinnar og skipstjórans, Brynjar Östgård, gaf eftirfarandi skýringu á málavöxtum í sumar þegar skipið var tekið:

„Hér var um mannleg mistök að ræða. Skipið tilkynnti réttan afla til breskra yfirvalda og afladagbókin var sömuleiðis færð á réttan hátt. Einu mistökin voru þau að í vikulegri skýrslu til norsku fiskistofunnar stóð að afli skipsins hefði verið 18.000 kíló en átti að vera 189.000 kíló. Hér var um misritun að ræða og við teljum að þetta geti ekki talist refsivert. Engin vísbending var um að skipstjórinn hafi reynt að skjóta fiski undan,” sagði Östgård