föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norskir frábiðja sér makrílmjöl frá Íslandi

30. júlí 2009 kl. 12:13

Salmon Group AS, sem er samvinnufyrirtæki 26 lítilla og meðalstórra eldisfyrirtækja í Noregi, hefur krafist þess að laxafóðrið sem það kaupir innihaldi ekki makrílmjöl frá Íslandi þar sem makrílveiðar Íslendinga séu bæði ókvótasettar og ósjálfbærar.

Fóðurrisinn Skretting er aðalframleiðandi fiskfóðurs í Noregi. Leif Rune Pedersen framkvæmdastjóri Salmon Group segir í samtali við sjávarútvegsvefinn IntraFish í dag að Skretting hafi gefið þeim tryggingu fyrir því að fóðrið verði eingöngu úr hráefni frá sjálfbærum og kvótabundnum veiðum.

Á vef Intrafish kemur fram að norska fiskistofan og norska hafrannsóknastofnunin hafi farið fram á það við sjávarútvegsráðuneytið í Osló í síðustu viku að það íhugaði að gera nýja kröfu til fóðurfyrirtækjanna. Krafan yrði sú að þau skrásettu að allt hráefnið í fóður í norskan eldisfisk kæmi úr sjálfbærum veiðum.