mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norskur sjávarútvegur: Ríkisstyrkur til að mæta heimskreppunni

15. maí 2009 kl. 15:00

Norska ríkisstjórnin leggur til að veittur verði 19 milljóna króna styrkur (360 milljónir íslenskar) til að mýkja áhrif heimskreppunnar á norskan sjávarútveg.

Helga Pedersen, sjávarútvegsráðherra Noregs, segir í samtali við Fiskeribladet/Fiskaren að lagt sé til að peningarnir verði notaðir til að auka kynningu á norskum sjávarafurðum erlendis og til að styrkja flutning á fiski til fiskverkenda. Heimskreppan hefur leitt af sér erfitt ástand á mörkuðum fyrir norskar þorskafurðir. Lágt verð og sölutregða, kröfur um greiðslufresti og aukið birgðahald hjá framleiðendum í Noregi hafa leitt til erfiðleika í rekstri hjá fiskframleiðendum. Þeir hafa þar af leiðandi átt fullt í fangi með að kaupa fisk af útgerðinni í sama mæli og áður. Þeir framleiðendur sem hafa burði til að kaupa fisk kunna að vera staðsettir fjarri þeirri höfn þar sem fiskurinn berst að landi. ,,Flutningsstyrkir munu leiða til þess að skipin eigi auðveldara með að losna við fiskinn, sérstaklega minni bátar í strandveiðiflotanum,“ segir Helga Pedersen.