miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nóvemberaflinn 27% minni en í fyrra

15. desember 2009 kl. 09:36

Fiskaflinn í nýliðinum nóvember nam 86.000 tonnum samanborið við 119.000 tonn í sama mánuði í fyrra. Samdrátturinn er 27% og stafar hann að stærstum hluta af minni síldarafla en botnfiskaflinn dróst saman um 9%.

Botnfiskafli í nóvember nam tæpum 37.600 tonnum sem er 3.600 tonnum minna í nóvember í fyrra. Þar af nam þorskaflinn rúmum 16.200 tonnum, sem er um 1.000 tonnum meira en árið áður. Ýsuaflinn nam tæpum 5.300 tonnum sem er um 2.900 tonnum minni afli en í nóvember 2008. Ufsaaflinn stóð nokkurn veginn í stað á milli ára og nam 6.300 tonnum. Rúm 4.200 tonn veiddust af karfa sem er um 2.800 tonnum minni afli en í nóvember 2008.

Afli uppsjávartegunda nam tæpum 45.500 tonnum sem er 29.000 tonnum minni afli en í nóvember 2008. Skýrist sú breyting nær alfarið af minni síldarafla. Í nóvember veiddust einnig tæp 1.500 tonn af gulldeplu en ekkert var veitt af henni í nóvember 2008.  

Flatfiskaflinn var 1.927 tonn í nóvember 2009 og stóð nokkurn veginn í stað á milli ára. Skel- og krabbadýraafli nam 618 tonnum samanborið við 198 tonna afla í nóvember 2008. Af öðrum afla veiddust 108 tonn af sæbjúgu í mánuðinum.

Í frétt á vef Hagstofunnar segir kemur einnig fram að heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum nóvembermánuði, metinn á föstu verði, hafi verið 13,2% minni en í nóvember 2008. Það sem af er árinu hefur aflinn aukist um 3,9% miðað við sama tímabil 2008, sé hann metinn á föstu verði. 

Nánari upplýsingar eru á vef Hagstofunnar, HÉR