mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nær að auka veiðiskylduna

7. maí 2009 kl. 10:00

,,Ef fyrningarleiðin verður farin verður ákaflega erfitt að halda útgerðinni áfram,“ segir Brynjar Kristmundsson skipstjóri á Steinunni SH, í samtali við Fiskifréttir sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Útgerð Steinunnar SH hófst árið 1990. Skipið var kvótalaust en Brynjar sagði að þeir hefðu þá þegar byrjað á því að kaupa kvóta á skipið og bætt við hann smám saman, meðal annars til að bæta sér upp þær skerðingar sem orðið hafa í þorskkvótanum. Nú hvíla á Steinunni SH um 646 tonna kvóti í þorski og 185 tonn af ýsu. Brynjar var spurður hvernig fyrningarleið stjórnarflokkanna horfði við honum. ,,Það gefur auga leiði að við erum alfarið á móti þessu. Okkur var boðið upp á núverandi kerfi og við erum bara að vinna vinnuna okkar innan þess. Við höfum nú þegar greitt fyrir réttinn til að veiða. Við viljum ekki borga fyrir hann aftur með því að leigja kvóta til baka sem yrði tekinn af okkur. Ég segi bara eins og Ögmundur Jónasson: Þetta er arfavitlaust!

Ég ætla að vona að mannagreyin láti ekki verða af þessu. Er það ekki svo að korteri fyrir kosningar rísa menn upp og vilja breyta hinu og þessu en vita svo ekki hvað þeir eru að tala um? Ef fyrningarleiðin verður farin verður ákaflega erfitt fyrir okkur að halda útgerðinni áfram. Ef menn eru mikið á móti framsalinu væri nær fyrir þá að auka veiðiskylduna frekar en innkalla aflaheimildir,“ sagði Brynjar Kristmundsson.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.