miðvikudagur, 18. júlí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýtt hreinsivirki og bryggja á Fáskrúðsfirði

10. september 2017 kl. 08:00

Nýtt hreinsivirki Loðnuvinnslunnar. MYND/ÓÐINN MAGNASON

Fjárfesting upp á samtals hálfan milljarð króna

Umtalsverð uppbygging á sér nú stað hjá Loðnuvinnslunnar hf. á Fáskrúðsfirði. Þar er verið að reisa hreinsivirki fyrir þurrefni og fitu sem verður til við flökun á uppsjávarfiski og auk þess reisir Fjarðarbyggð nýja bryggju þar sem hægt verður að skipa út á mun hagkvæmari hátt unninni vöru. Samtals er þetta fjárfesting upp á tæpan hálfan milljarð króna.

Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, segir að þurrefnisagnirnar sem myndist við flökunina hafi fram að þessu farið að hluta í sjó. Með hreinsivirkinu verði hægt að fanga þær og sömuleiðis fitu sem fellur til við vinnsluna.

„Þetta er jafnt umhverfislegt skref sem við erum að taka og um leið bætt nýting. Þurrefnisagnirnar og fitan fer í bræðslu og verður að mjöli og lýsi. Þegar vinnsla á uppsjávarfiski er jafnmikil og raun ber vitni er ekki um annað að ræða en að útbúa vinnsluna eins vel og kostur er,“ segir Friðrik Mar.

Mannvirkið er 600 fermetrar að stærð á þremur hæðum. Á neðstu hæðinni verður loðnuhrognavinnslan sett upp, á miðhæðinni er hreinsivirkið en á efstu hæðinni er geymslurými. Húsið og búnaðurinn er fjárfesting upp á 170 milljónir króna.

 

Við höfnina neðan við frystigeymsluna er síðan verið að smíða bryggju sem auðveldar útskipun á vörum. Kostnaður Fjarðarbyggðahafna við bryggjusmíðina er áætlaður allt að 300 milljónir króna.

Ljósafellið hagkvæmt þrátt fyrir háan aldur

„Planið er svo að byggja uppsjávarvinnslu á þessu sama svæði í framtíðinni. Það hefur þó ekki verið tímasett hvenær farið verður í þá uppbyggingu en nokkuð ljóst er að beðið verður með það meðan Rússlandsmarkaður er lokaður,“ segir Friðrik Mar.

Loðnuvinnslan gerir út tvö skip, þ.e. skuttogarann Ljósafell og uppsjávarskipið Hoffell og línubátinn Sandfell.

 

„Við höldum að okkur höndum með endurnýjun á skipaflotanum. Þótt Ljósafellið sé orðið 44 ára gamalt hefur það tvisvar verið endurnýjað að miklu leyti. Ljósafellið er með mjög hagkvæma vél með hægari snúning en almennt tíðkast. Skipið er afar sparneytið og langt á undan sinni samtíð hvað það varðar.“