sunnudagur, 22. apríl 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýtt Þórsnes til hafnar í Stykkishólmi

15. júní 2017 kl. 17:00

Nýtt Þórsnes SH á siglingu í norskum firði.

Næst stærstur línubáta

 Nýtt Þórsnes SH 109 kom til Stykkishólms í gær. Skipið leysir af eldra Þórsnes sem fer í niðurrif. Þórsnes er gerður út fyrir veiðar á línu og net og er næst stærsti línubátur landsins. Hann var smíðaður í Noregi árið 1996.

GUÐJÓN GUÐMUNDSSON

gugu@fiskifrettir.is

Eggert Halldórsson, framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Þórsnes, segir að farið hafi verið að huga að kaupum á nýjum bát fyrir um tveimur árum. Eldra Þórsnes var smíðað í Þýskalandi 1964 og var því komið til ára sinna og þörf fyrir nýtt skip.

„Útgerðin sem við kaupum skipið af í Noregi er að láta smíða fyrir sig nýtt skip. Við höfðum verið að svipast um eftir bát og höfðum farið einu sinni út og gerðum tilboð í bát sem síðan gekk ekki upp. Þá fréttum við af því að þessi gæti verið á lausu og kaupin gengu saman. Báturinn hét áður Veidar 1 og kemur frá Álasundi,“ segir Eggert.

Nýtt millidekk

Framundan eru breytingar á Þórsnesi. Setja þarf upp nýtt millidekk með slægingaraðstöðu. Áður hafði allt verið fryst um borð en Þórsnes ætlar að setja upp millidekk eftir sínum þörfum. Síðan verður haldið á grálúðuveiðar í net.

„Við ætlum að reyna að viða að okkur einhverjum heimildum og skipta hugsanlega á heimildum.

Líklega tekur um tvær vikur að breyta millidekkinu. Það er hannað af Arctic Machinery ehf og Lavango Group og  smíðað í Litháen. Milligöngu um kaupin á skipinu var BP Shipping Agency. Nýtt Þórsnes er svipuð smíði og Örvar SH og Tjaldur SH en einum og hálfum metra breiðari. Eggert segir aðstöðu um borð með ágætum en að vísu sé skipið orðið rúmlega 20 ára gamalt og ýmislegt sem má laga í því eins og gengur.

Viðbótin verður grálúðan

Öllu jafnan verða 14 í áhöfn Þórsnes en þó 16 meðan hann er við grálúðuveiðar. Úthaldið á gráluðunni verður um 20 dagar og allt fryst um borð. Frystigetan en 10-15 tonn á sólarhring. Skipstjóri verður Margeir Jóhannesson sem var við stjórnvölinn á eldra Þórsnesi.

„Viðbótin verður grálúðan en við rennum dálítið blint í sjóinn. Framhaldið ræðst af því hve mikinn grálúðukvóta okkur tekst að útvega. Við höfum verið að veiða 2.600-2.700 tonn á Þórsnesið. Ætli þetta verði ekki bara svipað nema hvað aðrar áherslur og við skiptum hugsanlega á þorskheimildum fyrir grálúðu.“

Að sögn Helga Arnar Jacobsen hjá BP Shipping Agency er mikið um það í Noregi að útgerðir séu að skipa út línubátum fyrir svokallaða brunnbáta sem er að verða mjög útbreiddir við veiðar þar við land. Þau þykja síður henta til veiða við aðstæður eins og við Ísland. Þó gerir Samherji út línubátinn Önnu EA sem er með þessu lagi.