miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ódýr eldisfiskur seldur sem þorskur

19. ágúst 2009 kl. 12:00

Nokkuð hefur borið á því í Bandaríkjunum að ódýri eldisfiskurinn pangasius sé seldur sem miklu dýrari villtur fiskur eins og þorskur og ýsa. Tekið er hart á slíkum blekkingum og hafa menn hafa verið dæmdir í sektir og fangelsi fyrir slík brot.

Á sjávarútvegsvefnum fis.com er greint frá tveimur dæmum af þessu tagi. Í öðru tilvikinu áttaði viðskiptavinur Fish & Chips veitingastaðar sig á því að ekki væri allt með felldu og kærði til matvælaeftirlitsins sem úrskurðaði að notaður hefði verið pangasius í fiskréttina. Eigandi staðarins fékk sekt sem jafngilti um 800 þúsund íslenskum krónum. Pangasius er helmingi ódýrari fiskur en þorskur en hefur ekki sama næringargildi. Þessi eldisfiskur er fóðraður á grænmeti og skortir meðal annars omega 3 fitusýrur.

Í öðru tilviki var bandarískur fiskinnflytjandi dæmdur í 5 ára fangelsi og 12 milljón dollara sekt fyrir að selja mikið magn af frystum pangasius sem verðmætar villtar fisktegundir.

Með DNA greiningu er hægt að komast að hinu sanna í svona málum, en pangasius er hvítfiskur og þegar hann hefur verið flakaður er ekki auðvelt fyrir ókunnuga að sjá muninn á honum og villtum hvítfiski. Þar að auki er fiskurinn oft mikið kryddaður á veitingahúsum og þar með kemur fiskbragðið sjálft ekki eins vel fram.