föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorskstofninn í Barentshafi: Umframveiði seinkaði uppbyggingu

19. nóvember 2009 kl. 15:00

Umframveiði á þorski í Barentshafi seinkaði uppbyggingu þorskstofnsins þar en stuðlaði síður en svo að uppvexti hans eins og haldið hefur verið fram í fjölmiðlum, segir sviðsstjóri veiðiráðgjafar á Hafrannsóknastofnun í viðtali við Fiskifréttir.

Þorskstofninn í Barentshafi blómstrar um þessar mundir en fyrir áratug eða svo var hann í slöku ástandi. Talið er að stærð hans sé rúmar 2 milljónir tonna og að þar af sé hrygningarstofninn um ein milljón tonn. Þessi góði árangur í uppbyggingu stofnsins hefur náðst þrátt fyrir að þorskveiðar í Barentshafi undanfarin ár hafi verið töluvert umfram ráðgjöf fiskifræðinga.

,,Það er rétt að á undanförnum árum hefur veiðin farið verulega framúr ráðgjöf. Þegar allt er talið má reikna með því að aflinn hafi verið allt að því tvöfalt meiri en ráðlagt var einstök ár. Ég get því vel skilið að mönnum finnist fljótt á litið að þróunin sé í mótsögn við það sem fiskifræðingar hafa haldið fram en svo er þó ekki. Í framreikningum hjá vinnunefnd Alþjóðahafrannsóknaráðsins, sem fjallar um Barentshafsþorskinn, kemur til dæmis skýrt fram að strax á árinu 2000 var alltaf gert ráð fyrir því að hrygningarstofninn gæti stækkað um 60% þrátt fyrir að veiðin myndi fara þetta mikið framúr ráðgjöf. Þessar upplýsingar hafa allan tímann verið aðgengilegar á heimasíðu Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Í upphafi aldarinnar var sem sagt mörkuð sú stefna að reyna að byggja stofninn mjög hratt upp. Sú staðreynd að aflinn hefur sum ár farið verulega fram yfir ráðgjöf hefur seinkað uppbyggingu stofnsins. Umframveiðin er því síður en svo ástæðan fyrir stækkun stofnsins eins og ákveðnir aðilar hafa haldið fram í umfjöllun í fjölmiðlum að undanförnu,“ segir Björn Ævarr.

Sjá nánar ítarlegt viðtal við Björn Ævarr Steinarsson í nýjustu Fiskifréttum.