sunnudagur, 24. mars 2019
 

Neita að afhenda Herjólf – vilja aukagreiðslur

Vegagerðin hefur hafnað kröfum skipasmíðastöðvarinnar Crist S.A. sem gerir kröfur um viðbótargreiðslu þvert á alla samninga um lokaskil verksins og aukaverk. Vegagerðin hefur leitað ráðlegginga erlendra sérfræðinga á þessu sviði varðandi viðbrögð.

Myndi aldrei rúma mikið af þorski

Landgrunnið við Ísland er allt að hundrað sinnum stærra en landgrunnið við Jan Mayen. Vistkerfi landgrunnsins við Jan Mayen myndi því aldrei rúma þorsk í neinu magni sem nálgast það sem íslenska landgrunnið ræður við.

Merkingar á þorski hafnar á ný

Nú herma fréttir að íslenskur þorskur sé farinn að veiðast við Jan Mayen. Því er nauðsynlegt að merkingar séu stundaðar reglulega þannig að hægt sé að fylgjast stöðugt með því hvort breytingar verði á fari þorsks við Ísland.

Jafn og góður afli frá áramótum

Síðustu tvö ár þurftum við að fara vestur á Selvogsbanka til að fá þorsk í mars- og aprílmánuði en nú er staðan allt önnur,“ segir Þórhallur Jónsson, skipstjóri.

Mikill vöxtur í fiskeldi

Framleidd voru 19 þúsund tonn í fiskeldi á Íslandi árið 2018 og hefur framleiðslan nær fjórfaldast á síðustu tíu árum. Þar af var framleiðslan í laxeldi um 13,5 þúsund tonn.

Varpa nýju ljósi á þróunartengsl þorskfiska

Í greininni eru þróunartengsl einstakra tegunda rakin nánar, t.d. hvernig Atlantshafsþorskur blandaðist við tegundir í Íshafinu og úr varð vagleygði ufsi eða Alaskaufsi


TölublöðVenjuleg útgáfa

Óvenjumikið sást af loðnuseiðum og einnig mikið af þorskseiðum

4. september 2008 kl. 17:50

Í nýafstöðnum leiðangri rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar fannst mun meira af loðnuseiðum en undanfarin ár. Hins vegar var lítið að sjá af eins til þriggja ára loðnu.

Þá varð vart við meira af þorskseiðum úti af Vestfjörðum og Norðurlandi en í fyrra og hittifyrra.

„Ánægjulegu fréttirnar úr þessum leiðangri eru þær að við sáum óvenjumikið af loðnuseiðum á sérstaklega stóru svæði í Íslandshafi og á landgrunni Austur-Grænlands, meira en við höfum áður orðið varir við síðan 2006. Jafnframt fengum við talsvert af þorskseiðum á íslenska landgrunninu úti af Vestfjörðum og Norðurlandi, meira en í fyrra og hittifyrra. Því er von til þess að klak loðnunnar og þorsksins hafi tekist vel. Það kemur svo í ljós á næsta ári hvernig þessum kvikindum hefur reitt af fyrsta árið, en það ár skiptir oft sköpum í afkomu þeirra,” sagði Ólafur Karvel Pálsson fiskifræðingur og leiðangursstjóri á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni í viðtali við Fiskifréttir, en skipið er nýkomið er úr árlegum leiðangri í Íslandshaf og Grænlandssund.

Lítið af eins til þriggja ára loðnu

Vonbrigðin voru hins vegar þau að lítið fannst af eins, tveggja og þriggja ára loðnu í leiðangrinum.

„Við rákum í smáræði hér og þar meðfram landgrunnsbrún Austur-Grænlands, frá 69. gráðu og suður undir 66. gráðu. Þetta var ýmist blanda af eins og tveggja ára loðnu eða hrein tveggja ára loðna. Nánast ekkert var af 3ja ára loðnu. Loðnan virtist ekki vera uppi á landgrunninu sjálfu heldur fremur í námunda við landgrunnsbrúnina. Við vorum að sjálfsögðu að vonast til að fá eitthvað meira en þetta, en fyrir liggur að loðnustofninn er í lægð svo ástæðulaust er að velta mikið vöngum yfir þessari niðurstöðu að svo stöddu. Þetta var heldur ekki fullburða magnmæling á loðnustofninum, hún mun fara fram síðar,” sagði Ólafur Karvel.

Nánar er rætt við Ólaf Karvel í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.