mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Pangasíus fær falleinkun í Danmörku

21. nóvember 2009 kl. 14:31

Ódýri, innflutti, víetnamski eldisfiskurinn pangasíus, sem farinn er að ógna hefðbundnum neyslufiski í mörkuðum í Evrópu, fær slæma útreið í rannsókn sem gerð var í Danmörku á innihaldi og gæðum hans samanborið við þorsk og rauðsprettu.

Rannsóknin leiddi í ljós að 40% sýnanna sem tekin voru úr pangasíus-flökum reyndust innihalda listeríusýkla en engir slíkir sýklar voru í sýnum úr þorski og rauðsprettu. Listería er sýkill sem valdið getur alvarlegum sjúkdómum hjá þeim sem hafa skert ónæmiskerfi. Listerían hefur komið í fiskinn á framleiðslustigi hans, hún drepst ekki við frystingu, eingöngu þegar fiskurinn er soðinn eða steiktur. Þá fannst klórbragð af helmingi pangasíus-flakanna en ekkert slíkt bragð var af þorskinum og rauðsprettunni.

Einnig var kannað innihald omega-3 fitusýra í þessum fisktegundum og reyndust 3% vera í pangasíus, 27% í rauðsprettu og 50% í þorski. Þá var áberandi minna af selen og joði í eldisfiskinum en í hinum tegundunum enda er pangasíus ferskvatnsfiskur.

Danska rannsóknastofnunin Höjmarklabortatioret AS gerði rannsóknina fyrir samtök danskra fiskframleiðenda. Ekki kemur fram hvernig staðið var að því að afla sýna til rannsóknarinnar en hins vegar er ljóst að dönskum fiskmönnum finnst sér ógnað því sala á pangasíus hefur stóraukist í Danmörku á sama tíma og sala á rauðsprettu hefur dregist verulega saman. Fiskimenn í öðrum löndum Evrópu hafa einnig lýst áhyggjum sínum.

Á síðasta ári voru flutt inn 668.000 tonn af pangasíus til ríkja Evrópusambandsins umreiknað í heilan fisk. Það var 34% aukning frá árinu á undan.