föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Pangasius ógnar spænskum fiskimönnum

25. ágúst 2009 kl. 11:28

Eldisfiskurinn pangasius, sem ræktaður er í Víetnam, flæðir nú yfir Spán í stórauknum mæli og veldur verðfalli á fiski sem spænskir fiskimenn veiða. Þeir krefjast þess að eitthvað verði gert til þess að styrkja stöðu þeirra gagnvart þessari innrás á markaðinn.

Spánverjar flytjast mest inn af pangasius allra þjóða. Innflutningurinn nam 46.000 tonnum árið 2008 sem var 28% aukning frá árinu áður. Á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs voru flutt 17.000 tonn flutt inn til Spánar eða 15% meira en á sama tíma í fyrra. Til samanburðar má nefna að heildarinnflutningur á þessum eldisfiski til Evrópusambandslandanna á þessum tíma nam 64.300 tonnum sem var tæplega 2% aukning.

Í frétt á sjávarútvegsvefnum IntraFish segir að stórir dreifingaraðilar á Spáni flytji inn kílóið af pangasius á 1,5 evrur kílóið en selji það til neytenda á 9 evrur. Talsmenn spænskra hvítfiskframleiðenda kvarta sáran undan samkeppninni við þennan ódýra innflutta fisk og kalla á strangara eftirlit með því að varan sé ómenguð og að hún sé rétt markaðssett. Flestir neytendur viti til dæmis ekki að í þessum fiski séu nær engar omega-3 fitusýrur. Fiskurinn sé mikið notaður í máltíðir í skólum og á sjúkrahúsum og svo seldur í stórmörkuðum.Fiskverð á uppboðsmörkuðum á Spáni hefur fallið um 30-50% síðustu 12 mánuðina, að því er haft er eftir talsmanni spænska fiskiðnaðarins.

Það er ekki eingöngu eldisfiskinum pangasius um að kenna heldur hefur mikið af fiski frá öðrum löndum, svo sem Suður-Afríku, Namibíu, Senegal, Máritaníu, Marokkó, Argentínu og Chile, ratað inn til Spánar. Bent er á að spænskir útgerðarmenn þurfi að hlíta miklu strangari og kostnaðarsamari reglum ESB um laun, vinnuumhverfi og öryggi fiskimanna sinna en þær erlendu þjóðir sem sendi fisk sinn á markað á Spáni og standi því höllum fæti í samkeppninni.