fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ræddu framkvæmd Hoyvíkursamningsins

21. mars 2018 kl. 10:43

Utanríkisráðherrarnir Poul Michelsen og Guðlaugur Þór Þórðarson.

Utanríkisráðherrar Íslands og Færeyja hittust í Reykjavík á mánudaginn.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, og Poul Michelsen, utanríkisráðherra Færeyja, ræddu samskipti ríkjanna á fundi sínum í utanríkisráðuneytinu 19. mars 2018.

Sérstaklega ræddu þeir hina nýju fiskveiðilöggjöf sem tók gildi í Færeyjum byrjun árs 2018. Sú löggjöf útilokar erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi, þar á meðal íslenskar, og stangast þar með á við Hoyvíkursamninginn, fríverslunarsamning sem Ísland og Færeyjar gerðu árið 2005.

Ráðherrarnir ræddu í því samhengi framkvæmd Hoyvíkursamningsins, en í færeysku lögunum er gert ráð fyrir því að hann verði að einhverju leyti tekinn til endurskoðunar.

Samkvæmt færeysku löggjöfinni er eignarhald íslenska útgerðarfélagsins Samherja í færeyska útgerðarfélaginu Framherja í uppnámi, en í lögunum er Íslendingum gefinn sjö ára frestur.

Nánar má lesa um nýju færeysku fiskveiðilöggjöfina í frétt sem birtist í Fiskifréttum í lok janúar.

gudsteinn@fiskifrettir.is