föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ráðherra var óheimilt að færa byggðakvóta á milli fiskveiðiára

16. desember 2009 kl. 11:35

Sjávarútvegsráðherra var óheimilt að framlengja úthlutunartímabil byggðakvóta fiskveiðiársins 2006-2007 til 31. desember 2007 - og þar með inn á nýtt fiskveiðiár - með útgáfu sérstakrar reglugerðar (nr. 440/2007.) Ákvörðunin átti sér ekki lagastoð og var því brot á lögmætisreglunni.

Þetta kemur fram í nýlegu áliti umboðsmanns Alþingis.

Í álitinu er staðfest sú meginregla að heildarafli og leyfilegt aflamark miðist við fiskveiðiárið í samræmi við lög um stjórn fiskveiða. Ráðherra geti ekki breytt því einhliða með stjórnvaldsfyrirmælum. Samkvæmt umræddri reglugerð hafa því þau skip og bátar, sem fengu úthlutað byggðakvóta frá 1. september til 31. desember 2007, verið að veiðum án lögmætra veiðiheimilda.

Rúmlega tvö ár eru liðin frá því LÍÚ lagði fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna reglugerðarinnar. Í áliti umboðsmanns er ráðuneytið átalið fyrir seinagang. Þar er jafnfram vakin athygli á mikilvægi þess að virða málshraðareglu stjórnsýslunnar. Að öðrum kosti sé gert lítið úr réttarvernd borgaranna gagnvart stjórnsýslunni.

Frá þessu er skýrt á vef LÍÚ.

Álit umboðsmanns Alþingis má sjá HÉR