miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rólegt á gulldeplunni

14. desember 2009 kl. 16:02

Sex skip eru nú á gulldepluveiðum og er veiðisvæðið sem fyrr í nágrenni Grindavíkurdýpis, en veiðar hafa tafist nokkuð að undanförnu vegna þrálátrar ótíðar. Aflabrögðin eru líkt og áður með rólegra móti, að því er fram kemur á heimasíðu HB Granda.

,,Það er ekki mikið að sjá og lóðningar eru ekki miklar. Þetta eru aðallega litlir blettir sem við verðum varir við. Vandinn er einnig sá að það þýðir ekkert að veiða gulldepluna nema á meðan birtu nýtur og dagurinn er ekki langur um þessar mundir. Það er togað frá því á morgnana og þar til að það dimmir og það þykir gott að fá 120 til 150 tonn í holi,“ sagði Róbert Axelsson afleysingaskipstjóri á Ingunni AK í samtali á heimasíðunni.

Auk skipa HB Granda, Ingunnar AK, Faxa RE og Lundeyjar NS, eru Hoffell SU, Sighvatur Bjarnason VE og Ísleifur VE nú á veiðisvæðinu í kantinum suðaustan við Grindavíkurdýpið.