mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rússar ætla að smíða 500 stór fiskiskip

13. nóvember 2009 kl. 13:01

Rússar ætla að verja 12 milljörðum evra eða jafnvirði 2.232 milljörðum íslenskra króna til smíða á 500 stórum fiskiskipum á næstu 12 árum ásamt því að endurbæta eldri skip og skipasmíðastöðvar.

Gert er ráð fyrir að 450 skipanna, sem verða yfir 70 metrar að lengd, verði smíðuð í Kaliningrad við Eystrasalt en samið verður um smíði 50 skipa á Spáni eða í Þýskalandi. Andrey Krayniy fiskveiðistjóri Rússlands upplýsti þetta á sjávarútvegssýningunni í Vigo á Spáni nýlega.

Breska sjávarútvegsblaðið Fishing News International (FNI) minnir á í þessu sambandi að á árunum 1990-1993 hafi spænskar skipasmíðastöðvar tekið að sér að smíða 15 stór verksmiðjuskip fyrir Rússa og gengu spænsk stjórnvöld í ábyrgð fyrir lánum vegna smíðanna. Afhending skipanna tafðist hins vegar vegna þess að Rússarnir stóðu ekki við greiðslur. Forstjóri einnar skipasmíðastöðvarinnar tjáði FNI á þeim tíma að skuldin myndi lenda á spænsku ríkisstjórninni.

Á ýmsu gekk með þennan flota eftir að hann komst í rekstur og mörg skipanna enduðu í höndum útlendinga. Forsvarsmenn skipasmíðastöðva á Spáni eru varkárir í þetta sinn. Þeir segja að rússnesku útgerðarfyrirtækin hafi óskað eftir 100% láni fyrir skipasmíðinni,  sem erfitt sé að samþykkja. Ef kaupandinn leggi ekki fram neina fjármuni geti hann hvenær sem gengið burt frá samningnum án skaða.