mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjávarafurðir lækka á ný í erlendri mynt

31. júlí 2009 kl. 08:31

aðstæður á mörkuðum viðkvæmar

Verð á íslenskum sjávarafurðum (meðaltal allra afurðaflokka) mælt í erlendri mynt lækkaði um 1,1% í júní síðastliðnum. Þetta byggir á okkar útreikningi IFS Greiningar m.v. tölur um framleiðsluverð í júní sem Hagstofan birti í gærmorgun.

Afurðaverðið hafði áður hækkað tvo mánuði í röð en lækkar nú lítillega. Síðustu sex mánuði hefur afurðaverð lækkað um 6,4% mælt í erlendri mynt. IFS Greining segir að tölurnar að tölu Hagstofunnar gefa vísbendingu um að aðstæður á mörkuðum erlendis séu enn viðkvæmar.

Ýmis jákvæð teikn hafi komið fram í nýlegum hagvísum. Svo virðist þó sem enn sé nokkur samdráttur í Evrópu en staðan heldur skárri í Bandaríkjunum.

Að mati IFS Greiningar eru horfur fyrir árið 2010 betri og því ætti spurn eftir sjávarafurðum að aukast eitthvað á næsta ári. Almennt hefur verð á  hrávörum á heimsmarkaði hækkað á síðustu mánuðum. Sú hækkun hefur verið byggð á væntingum um betri tíð á næstunni fremur er raunverulegri eftirspurn síðustu mánuðina.

Afurðaverð jafn hátt og árið 2006

Afurðaverðið nú er álíka hátt og í upphafi ársins 2006. Hrávöruvísitölur sýna að ýmsar aðrar hrávörur eru að sama skapi álíka dýrar og fyrir þremur árum. Flest bendir til að sú mikla verðhækkun sem varð á sjávarafurðum sem og öðrum hrávörum á árunum 2007-2008 hafi verið bóla. Við væntum mun hóflegri hækkana á afurðaverði á næstu árum, segir IFS Greining.