mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjávarútvegsfyrirtæki greiða launauppbætur

14. desember 2009 kl. 14:51

Vinnslustöð Vestmannaeyja ætlar að greiða hverjum starfsmanni 150.000 krónur til viðbótar desemberuppbót nú fyrir jólin. Þá verður jólabónusinn tvöfaldaður hjá Ísfélagi Vestmannaeyja vegna góðrar afkomu á árinu. Loks hefur Samherji tilkynnt 100.000 kr. launauppbót til starfsmanna sinna í landi auk desemberuppbótar. 

Afkoma fyrirtækjanna hefur verið góð á árinu vegna veikrar stöðu krónunnar.

Á vef Frétta í Vestmannaeyjum kemur fram að um 110 fastráðnir starfsmenn Vinnslustöðvarinnar, að undanskildum æðstu stjórnendum, fái 150 þús. kr. auk desemberuppbótar. Þá fái um 120 starfsmenn í landvinnslu Ísfélagsins tvöfalda desemberuppbót, sem svari til tæplega 90.000 króna á hvern starfsmann.

Á heimasíðu Samherja kemur fram að félagið hafi ákveðið að greiða 300 starfsmönnum sínum í landi 100 þúsund króna launauppbót, miðað við fullt starf, og bætist hún við umsamda desemberuppbót sem greidd er á sama tíma. Þetta er í annað skiptið á árinu sem Samherji greiðir starfsfólki sínu launauppbót umfram kjarasamninga, en það var einnig gert síðastliðið vor.