miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjávarútvegsráðherra: ,,Sáttanefndin" um stjórn fiskveiða skipuð

2. júlí 2009 kl. 13:58

þingmaður Samfylkingarinnar formaður

Sjávarútvegsráðherra hefur skipað fulltrúa í starfshóp um endurskoðun á fyrirkomulagi fiskveiðistjórnunar. Í hópnum eru 16 manns, fulltrúar stjórnmálaflokka og félaga í sjávarútvegi. Formaður hópsins er Guðbjartur Hannesson þingmaður Samfylkingarinnar.

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra sagði nýlega í viðtali við Fiskifréttir að hlutverk starfshópsins væri að ná sátt um sjávarútvegsstefnuna. Hópurinn myndi fjalla um öll helstu mál er litu að fiskveiðistjórn þar með talið fyrningarleiðina umdeildu.

Fréttatilkynning sjávarútvegsráðherra um skipan starfshópsins fer hér á eftir:

Með vísan til stefnuyfirlýsingar núverandi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, hefur Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipað starfshóp til þess að endurskoða fyrirkomulag fiskveiðistjórnunarinnar.

Verkefni starfshópsins verður að skilgreina helstu álitaefni, sem fyrir hendi eru í löggjöfinni og lýsa þeim. Hann láti vinna nauðsynlegar greiningar og setji að því loknu fram valkosti um leiðir til úrbóta, þannig að greininni verði sköpuð góð rekstrarskilyrði til langs tíma, fiskveiðar verði stundaðar með sjálfbærum hætti og sem víðtækust sátt náist um fiskveiðistjórnunina meðal þjóðarinnar. Starfshópnum er gert að hafa sem víðtækast samráð við aðra aðila, t.d. með viðtölum, viðtöku álitsgerða og á veraldarvefnum. Honum er gert að skila af sér álitsgerð fyrir 1. nóvember n.k. Á grundvelli vinnu starfshópsins og þeirra valkosta sem hann bendir á, mun ráðherra ákveða frekari tilhögun við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar.

Starfshópurinn er þannig skipaður:

Fulltrúar stjórnmálaflokka: Guðbjartur Hannesson alþingismaður og Svanfríður Jónasdóttir bæjarstjóri, ftr. Samfylkingarinnar. Guðbjartur er jafnframt formaður hópsins. Björn Valur Gíslason og Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismenn, ftr. Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs. Gunnar Bragi Sveinsson, alþingismaður, ftr. Framsóknarflokksins. Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður, ftr. Sjálfstæðisflokksins.

Fulltrúar annarra: Árni Bjarnason, formaður Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Adolf Guðmundsson, formaður og Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka íslenskra útvegsmanna. Arthúr Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda. Sigrún B. Jakobsdóttir bæjarfulltrúi, ftr. Samtaka íslenskra sveitarfélaga. Erla Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri, ftr. Samtaka fiskvinnslustöðva. Jón Steinn Elíasson, formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda. Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands. Aðalsteinn Baldursson, formaður matvælasviðs Starfsgreinasambands Íslands. Guðmundur Þ. Ragnarsson, formaður VM-Félags vélstjóra og málmtæknimanna.