mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

,,Sjómenn fjær ströndum hafa enga tryggingu fyrir björgun"

13. mars 2009 kl. 12:19

- segir forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins

Árni Bjarnason forseti Farmanna- og fiskimannsambandsins gagnrýnir niðurskurð hjá Landhelgisgæslunni harðlega í grein í nýjustu Fiskifréttum og segir að vegna hans muni sjómenn sem staddir eru fjær ströndum landsins ekki hafa neinar tryggingu fyrir því að þeim verði komið til bjargar í neyð.

Árni segir m.a. í greininni: 

,,Fróðlegt væri að fá útlistun dómsmálaráðherra á því hvernig brugðist yrði við ef upp kæmi alvarlegt tilfelli, segjum 120 sjómílur vestur úr Bjargi.  Samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum hafa þær aðstæður komið upp á síðustu vikum að dögum saman er aðeins ein þyrla  flughæf og það sem er enn verra,  a.m.k. tvö tilvik eru til staðar, þar sem engin þyrla er gangfær hluta úr degi.  Sama er hvort tilvikið er um að ræða, ástandið er fullkomlega óásættanlegt. 

Vinnureglur (öryggisreglur) á þyrlunum eru með þeim hætti að ekki er tekin áhætta á að senda þyrlu eina og sér lengra en 20 sjómílur á haf út. Gengið er út frá því að tvær þyrlur séu í samfloti þegar um lengri vegalengdir er að ræða. Þar með má fullyrða að þeir sjófarendur sem eru fjær ströndum landsins en að framan greinir hafa enga tryggingu fyrir því að  þeim sé komið til aðstoðar eða til bjargar í neyð.                                                                         

Allir hafa skilning á því að ástandið í þjóðfélaginu er gríðarlega erfitt og skera verður niður og spara alls staðar þar sem því verður með sæmilegu móti við komið. Segja má að fokið sé í flest skjól þegar ráðamenn  þjóðarinnar meta stöðuna svo alvarlega að skerða verði öryggi íslenskra sjómanna. Öryggi sem tekið hefur áratugi að koma í ásættanlegt horf. Það er rangt að koma fram fyrir alþjóð og halda því fram að björgunargeta LHG  sé í lagi þegar raunin er allt önnur,” segir forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins í greininni í Fiskifréttum.