þriðjudagur, 21. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjómenn segja veiðar stjórnlausar

Guðjón Guðmundsson
5. maí 2019 kl. 09:00

Sæbjúgu líða fyrir of mikla sókn. MYND/ÓÐINN MAGNASON.

Orðrómur um að sæbjúgu verði kvótasett

Stjórnun á veiðum á sæbjúgum er farin að valda jafnt útgerðarmönnum og sjómönnum verulegum áhyggjum. 1. mars síðastliðinn lagði Hafrannsóknastofnun til að stuðst yrði við varúðarnálgun við veiðar frá 1. apríl sl. til 31. ágúst og að veiðar utan skilgreindra veiðisvæða verði háðar leyfum til tilraunaveiða. Afli á sóknareiningu á fjórum af átta svæðum hefur fallið á undanförnum árum, hugsanlega vegna of stífrar sóknar.

Engin viðbrögð hafa borist frá sjávarútvegsráðuneytinu vegna þessa þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir hagsmunaaðila og óttast þeir nú of miklar veiðar í maímánuði með ófyrirséðum afleiðingum fyrir stofninn. Leyfi hafa verið gefin út til sæbjúgnaveiða og sjö skip hafa stundað veiðarnar. Þær hafa að undanförnu að mestu farið fram út af Vestfjörðum og út af Suðausturlandi. Á báðum svæðum virðist hafa verið veitt umfram ráðgjöf sem gefin var út í apríl. Skipin stefna núna inn í maímánuð, þegar veiðin er að jafnaði hve mest,  án þess að búið sé að loka svæðum.  Því er líklegt  að veitt verði verulega umfram ráðgjöf.

Beðið viðbragða frá ráðuneytinu

„Við gáfum út ráðgjöf síðastliðið vor þar sem við lögðum til þær breytingar að veiðar utan skilgreindra svæða yrðu háðar tilraunveiðileyfum en þær eru núna frjálsar fyrir þá sem hafa leyfi til sæbjúgnaveiða. Með ráðgjöfinni vorum við fyrst og fremst að horfa til varúðarnálgunar við stjórn veiðanna,“ segir Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri botnsjávarlífríkissviðs hjá Hafrannsóknastofnun.

Í kjölfarið kynnti sjávarútvegsráðuneytið drög að reglugerð sem kvað á um breytingar á stjórn sæbjúgnaveiða. Ekki var einhugur um reglugerðina meðal hagsmunaaðila og snerist ágreiningur t.a.m. um það hvort hleypa ætti fleiri aðilum inn í tilraunaveiðarnar.

Sjávarútvegsráðuneytið leitaði síðan til Hafrannsóknastofnunar eftir ráðgjöf um sæbjúgnaveiðar á nýjum svæðum og  birtist sú ráðgjöf 1. mars síðastliðinn.

„Þar lögðum við til að skilgreind yrðu fleiri svæði og að svæðunum verði lokað þegar veiðiráðgjöf er náð. Við þessu hefur ráðuneytið ekki brugðist ennþá. Við höfum áhyggjur af því að veiðar á þessum nýju svæðum séu í raun stjórnlausar í dag“ segir Guðmundur.

Hann segir ekki liggja fyrir hvort veiðiráðgjöf sé þegar náð á einhverjum eða öllum þessum svæðum en veiðarnar séu nú í fullum gangi. Þær hafi aukist umtalsvert og frá 1. mars sé aflinn kominn í yfir 400 tonn. Skipin hafi verið við veiðar út af Vestfjörðum á þeim svæðum þar sem Hafrannsóknastofnun lagði til að sett yrði á aflamark.

Umfram afrakstursgetu

Sú umræða hefur verið uppi að hugsanlega verði sæbjúgu kvótasett. Guðmundur segir að sér virðist sem veiðarnar núna einkennist af því að menn séu að verða sér úti um veiðireynslu ef svo færi að sæbjúgnaveiðar færu undir aflamarkskerfið. Í raun fari nú fram ólympískar veiðar á sæbjúgum. Bátarnir sem stunda veiðarnar eru stærri en áður og veiðarnar mun afkastameiri, m.a. með tveimur plógum í stað eins.

„Veiðarnar hafa verið of stífar og umfram afrakstursgetu stofnsins. Við sjáum að afli á sóknareiningu hefur fallið á mörgum stöðum. Það er því full ástæða til að grípa inn í þessar veiðar,“ segir Guðmundur.

Eitt þeirra skipa sem hefur stundað sæbjúgnaveiðar er Klettur ÍS. Bergur Garðarsson skipstjóri er frumkvöðull í þessum veiðum og hefur stundað þær frá árinu 2004. Hann segir mikið hafa breyst á þessum tíma, t.a.m. veiðarfærin. Í fyrstu hafi verið veitt með einum skíðaplóg en nú séu flestir með tvo hjólaplóga sem eru mun afkastameiri en líka umhverfisvænni veiðarfæri.

Í raun 18 leyfi

„En kerfið er jafnvitlaust og það hefur verið frá byrjun. Það eru gefin út níu leyfi og í upphafi var einn plógur í hverjum bát. Stærri bátarnir komu sér fljótt upp tveimur plógum og það eru í raun engin takmörk fyrir því hve margir þeir mega vera í hverjum bát. Þetta hefur líka þróast á þann hátt að sumir bátar eru á veiðum allan sólarhringinn. Fyrir vikið er ánýðsla á svæðin mun meiri. Ég er hlynntur 14 tíma reglunni sem hefur reynst mjög vel. Sóknin hefur því þyngst og eina stjórnunin á veiðunum hefur verið útgáfa leyfa. Þau voru í upphafi 9 en eru nú í raun að verða 18 því flestir bátarnir eru nú með tvo plóga. Við erum að veiða helmingi meira með tvo plóga en einn þannig að afkasta- og veiðigetan hefur tvöfaldast,“ segir Bergur.

Hann segir að stjórnunin hafi líka falist í skilgreiningu á þremur veiðihólfum og veiðarnar á þeim hafa alls staðar verið á undanhaldi. Veiðin er því á nýjum svæðum og þangað er sótt þar til þau gefa eftir líka. Bergur óttast að verði ekki gripið til aðgerða geti það endað með flóði reglugerða með lokunum sem stöðvi veiðarnar.

„Menn halda að sæbjúgun verði kvótasett og það hefur aukið sóknina enn frekar. Menn eru að róa í verri veðrum og lítil hlé eru milli túra. Þegar ný svæði koma inn er riðlast á þeim endalaust og allt gert til að afla sér veiðireynslu. Ég óttast að þegar afköstin hafa aukist svona mikið að við göngum of nærri þeim svæðum sem eru opin.“

Á svæðunum í hólfunum þremur fyrir austan, út af Vestfjörðum og við Aðalvík, er gefið út ákveðið magn sem má veiða. Bergur segir mikið undanhald á svæðunum þar sem mest hefur verið veitt. Í Aðalvík sé til að mynda kominn krossfiskur á svæðið sem éti ungviðið.