þriðjudagur, 25. september 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjötíu milljarðar settir í hafið

5. október 2017 kl. 15:00

Federica Mogherini ávarpar ráðstefnuna á Möltu. MYND/EPA

Utanríkismálafulltrúi ESB segir það sameiginlega ábyrgð okkar allra að halda heimshöfunum hreinum og heilbrigðum.

Evrópusambandið ætlar að leggja 560 milljónir evra, jafnvirði um það bil 70 milljarða króna, í tugi verkefna sem öll miða að því að tryggja öryggi og heilbrigði sjávar. Federica Mogherini, utanríkisfulltrúi Evrópusambandsins, skýrði frá þessu á sjávarútvegsráðstefnunni Our Oceans á Möltu í dag.

Í ræðu sinni sagði hún heimshöfin vera í hættu: „Árið 2050 gæti farið svo að meira plast sé í höfunum en fiskur,“ sagði hún. „Og eitrið sem við hendum út í hafið kemur í bakið á okkur, upp á borðin okkar, inn í matvælin sem við snæðum.“

Féð á að fara í 36 stór og smá verkefni, allt frá alþjóðasamstarfi til lítilla viðvika í hversdagslífi okkar, eins og hún orðaði það. Sem dæmi nefndi hún að sendiráð Evrópusambandsins víða um heim hafi það sem af er þessu ári staðið fyrir því að hreinsa 27 strandsvæði: „Þetta er lítill hlutur sem skiptir máli. Við þurfum alþjóðegt samstarf og við þurfum daglegt framlag frá öllum. Þetta er sameiginleg ábyrgð okkar allra.“

Hún sagði heimshöfin standa undir milljónum starfa og framfærslu milljóna manna.

„En í dag er svo komið að höfin eru að sýkjast og verða óörugg. Höfin eru stærri en nokkur heimsálfa, en samt ekki svo stór að þau geti ekki brugðist. Þegar höfin eru óheilbrigði þá er heimurinn óheilbrigður,“ sagði hún í ræðu sinni.

Margir stjórnmálaleiðtogar og forystufólk í sjávarútvegi tekur þátt í ráðstefnunni á Möltu, sem hófst í morgun og stendur í tvo daga. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra tekur þar þátt í málstofu á morgun um áhrif loftslagsbreytinga á heimshöfin.

Með umræðunum má fylgjast á vefsíðu ráðstefnunnar, ourocean2017.org.