mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skotland: Verðum að endurheimta yfirráðin yfir miðunum

11. nóvember 2009 kl. 09:00

  Sjávarútvegsráðherra Skota, Richard Lochhead, sagði á ráðstefnu í síðustu viku að kominn væri tími til þess að hefja uppbyggingarstarf eftir þá eyðileggingu sem hin sameiginlega fiskveiðistefna Evrópusambandsins hefði valdið skoskum sjávarútvegi. „Við verðum að fá valdið yfir miðunum okkar heim á ný," sagði hann.

Á ráðstefnunni kom fram að rúmum þriðjungi alls þorsks, sem veiðist í Norðursjó og á miðum vestur af Skotlandi, væri kastað í hafið aftur. Talið er að verðmæti þess afla sem kastað er í sjóinn nemi um 60 milljónum sterlingspunda á ári. Í frétt á vef skosku heimastjórnarinnar sagði Lochhead það mat sjómanna og ýmissa sérfræðinga að brottkast væri einn helsti galli fiskveiðistefnunnar.

Locchead sagði reglugerðarfargan og smámunasemi flækja framkvæmd sameiginlegrar fiskveiðistefnun ESB og hugsanlega væri hún versta dæmið um áhrif stefnumótunar ESB á Skotland. Hann sagði skoska sjómenn nú ganga á undan með ábyrgu fordæmi við veiðar. „Ímyndið ykkur hvað við gætum gert ef við hefðum stjórn mála í eigin höndum?"

Sjá nánar á vef skosku heimastjórnarinnar, HÉR