þriðjudagur, 21. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sögusagnir sjómanna nú loksins staðfestar

svavar hávarðsson
6. maí 2019 kl. 07:00

Háhyrningar eru algengir við Íslandsstrendur og vekja ávallt aðdáun. Mynd/Filipa Samarra

Vísindamenn rannsaka „nýja“ tegund háhyrninga

Tímaritið alkunna National Geographic greinir frá því að vísindamenn hafi í fyrsta skipti séð og rannsakað nýja tegund háhyrnings. Heimkynni þessarar tegundar er djúpt suður í höfum – langt suður af syðsta odda Suður – Ameríku.

Áður hafi tegundin vissulega verið þekkt, en þá aðeins af orðrómi sjófarenda og einnig mun torkennileg tegund háhyrninga hafa gengið á land á Nýja-Sjálandi fyrir margt löngu. Þeir eru merkjanlega öðruvísi en þær tegundir háhyrninga sem þekktar eru hér við land og víðar; þeir eru töluvert minni, bakuggi þeirra er öðruvísi og hausinn kúptari, svo eitthvað sé nefnt.

Lifa í veðravíti

Vísindamennirnir fundu háhyrningana í janúar, um 60 sjómílur suður af Hornhöfða í Síle. Þar er sagt að heimsins verstu veður geysi og að hafi háhyrningarnir ætlað sér að vera í friði þá hafi þeir fundið einmitt staðinn til þess. Til þessara veðurskilyrða er rakið hversu lítið þekktir þessir háhyrningar eru.

Robert Pitman, vísindamaður hjá  Haf- og loftslagsstofnun Bandaríkjanna (NOAA) segir engum vafa undirorpið að um nýja tegund er að ræða – eða sérstaka tegund öllu heldur. Til þeirra er vísað sem tegund D – til sundurgreiningar frá öðrum háhyrningum. Þeir höfðu verð myndaðir af áhugaljósmyndurum, verið lýst af sjómönnum auk áðurnefnds tilviks þegar þeir gengu á land í Nýja-Sjálandi árið 1955. En aldrei fyrr hafa vísindamenn komist í tæri við þá – sem skilað hefur þessari vissu vísindasamfélagsins.

Forvitnar skepnur

Hópurinn sigldi á slóðir háhyrninganna á skipinu Australis eftir að sögusagnir höfðu borist frá sjófarendum um torkennilega útlítandi háhyrninga. Þeir dvöldu á svæðinu í vikutíma og komu dýrin að skipinu tugum saman. Þeir voru myndaðir ofan og neðan sjávarborðs. Eins voru tekin DNA-sýni úr einu þeirra með viðurkenndum aðferðum. Þessi sýni munu skera úr um það hvort tilgátan sé ekki örugglega rétt – að hér sé sérstök undirtegund háhyrninga á ferðinni. Nú er þess aðeins beðið að yfirvöld í Síle gefi grænt ljós á að sýnin verði flutt frá landinu til frekari rannsókna.

Dýrin dvöldu um tíma við skip vísindamannanna, en þrátt fyrir að hljóðupptökutæki hafi verið sett í sjóinn þá gáfu dýrin aldrei frá sér hljóð – þrátt fyrir að skoða upptökubúnaðinn af miklum áhuga.

Háhyrningarnir virðast ekki sjómönnum ókunnugir – eru þeir sagðir fiskiþjófar miklir. Fara þeir gjarnan í veiðarfæri sjómanna og gera sér að góðu það sjávarfang sem annars færi á markað. Bæði eru slíkar sagnir þekktar frá sjómönnum í Síle og við Crozet eyjaklasann í Indlandshafi.

Birtar hafa verið greinar byggðar á sögusögnum en Pitman vildi fyrst og síðast finna hvalina í sínu náttúrulega umhverfi og staðfesta tilveru þeirra með vísindalegum aðferðum. Með sýnatökunni er vonast til að fá upplýsingar um lífshætti þeirra og stöðu í þróunarsögu hvala.

Nokkrar tegundir háhyrninga eru þekktar – sumar drepa aðra hvali sér til matar, aðrir sel og enn aðrir fisk. Tegund D hefur þó mestu og greinilegustu sérkennin af þeim öllum.