sunnudagur, 21. október 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stöðug aukning í útflutningi á ferskum fiski frá 2008

5. desember 2017 kl. 15:07

Víðar hafa opnast leiðir til útflutnings með farþegaflugi. MYND/AF HEIMASÍÐU BLUEBIRD CARGO.

Sífellt meira magn með farþegaflugi


Magn ferskfisks í útflutningi hefur aukist mikið undanfarin ár og aukninguna má að mestu leyti rekja til útflutnings með skipum. Sífellt meira magn er þó flutt út með farþegaflugi. Þetta kom m.a. fram í erindi Sindra Más Atlasonar, sölustjóra ferskra afurða hjá HB Granda, á Sjávarútvegsráðstefnunni. Útflutningsverðmætin hafa farið úr því að vera 12% af heildarútflutningi sjávarafurða árið 2000 í 39% á þessu ári.


Tækifæri til útflutnings á nýja markaði með flugi hafa aukist verulega á síðustu misserum. Sindri Már ræddi þessi mál á Sjávarútvegsráðstefnunni í síðasta mánuði. Þar kvaðst hann ekki líta á þessa tvo flutningsmáta sem samkeppnisaðila heldur tvo ólíka kosti sem hafi sína styrkleika og kosti og saman styðji þeir það markmið að auka magn og útflutningsverðmæti ferskra afurða frá Íslandi.

Sindri minnti á það í erindi sínu að ferskur fiskur hafi frá upphafi nútíma fiskveiða verið fluttur út frá Íslandi. Fyrst með löndunum íslenskra og erlendra skipa á erlendri grundu og síðar með útflutningi á heilum fiski til vinnslu erlendis og enn síðar með útflutningi á ferskum afurðum með flugi og skipum.

Útflutningur ferskra sjávarafurða sé reyndar enn takmarkaður við fremur fá markaðslönd samanborið við frystar afurðir þar sem auðveldara er að þjóna viðskiptavinum á hagkvæman hátt með stöðugu framboði óháð staðsetningu.

„En sífellt meiri útflutningur á ferskum afurðum fer fram með farþegaflugi. Í dag er beint flug á marga áfangastaði, ýmist allt árið eða hluta árs. Við sjáum tækifæri í því að fljúga vöru inn á miðlæga og stóra flugvelli eins í London eða Amsterdam og trukka þaðan vöruna inn á markaðina frekar en að fljúga inn á smærri flugvelli nær kaupendunum. Þar eru hugsanlega ekki innviðir til að kæla vöruna og tollafgreiða og þannig getur tíminn sem sparaðist í flugi tapast jafnóðum.“

Sindri segir að flugfrakt til Bandaríkjanna nú sé fyrst og fremst með farþegaflugi en hafi áður verið með fraktflugi.

 

HB Grandi rekur tvær bolfiskvinnslur, eina í Reykjavík og aðra á Vopnafirði. „Í Reykjavík búum við að mikilli nálægð við Keflavíkurflugvöll og auk þess útskipunarhafnir í Reykjavík og Þorlákshöfn. Hér er því mögulegt að vinna ýmsar afurðir sem fluttar eru út með flugi en erfitt er að framleiða á Vopnafirði. Við getum hins vegar skipað út afurðum bæði frá Seyðisfirði og Reyðarfirði og við stillum vinnsluna að vissu leyti út frá þessu.“

Gott upplýsingaflæði mikilvægt

Sindri sagði daglegar áskoranir í útflutningi á ferskum afurðum af margvíslegu tagi. Það geti verið talsverður hasar í kringum flutninginn enda gríðarlega mikilvægt að sendingar skili sér á réttum tíma. Seinkanir um nokkra klukkutíma geta valdið því að hluti sendingar eða hún öll sendingin missi af dreifingu sem getur minnkað verðmæti hennar verulega. Fylgst sé grannt með vindaspám af þessum sökunum og fjölmörgum öðrum þáttum sem geti haft áhrif á flutningstímann. Menn reyni að sjá fyrir seinkanir til að geta gripið í tæka tíð til annarra aðgerða.

„Gott upplýsingaflæði milli flutningsaðila, útflytjenda og kaupenda er gríðarlega mikilvægt í þessum efnum. Oftast veldur seinkun sem hægt er að sjá fyrir litlum skaða en seinkun sem kemur óvænt upp getur reynst mjög kostnaðarsöm.“

Sindri segir að meðhöndlun fisks í veiðum og vinnslu sé enn að þróast og verða betri. Kælikeðjan sé enn að styrkjast og framleiðendur séu að bæta gæði afurðanna og lengja geymsluþolið.

„Ég held samt að það hljóti að koma að því fyrr en síðar að nýtt stökk verði tekið hvað varðar lengingu geymsluþols. Það gæti falist í tækni í pökkun, umbúðum eða meðhöndlun. En ég sé fyrir mér framþróun sem lengir geymsluþol ferskrar matvöru almennt verulega. Um leið verður þá staða okkar gagnvart flutningum allt önnur en hún er í dag.“